138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[16:14]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðismenn kvarta gjarnan yfir því að núverandi stjórnarflokkar taki langan tíma í að ráða við skuldavanda heimilanna en ég vil geta þess að þeirra er ekki síður sökin, því að á tímabilinu 1992–2007 voru lögð fram tíu frumvörp og þingsályktunartillögur frá þingmönnum á þinginu þess efnis að búinn yrði til lagarammi utan um greiðsluaðlögun. Ef við hefðum haft lagaramma utan um greiðsluaðlögun þegar bankarnir hrundu hér er ég þess fullviss að skuldaaðlögun heimilanna væri mun lengra á veg komin en hún er í dag. Því miður höfum við þurft að setja löggjöf um greiðsluaðlögun, ekki bara einu sinni heldur erum við núna aftur að laga þá löggjöf til að koma til móts við þarfir ólíkra hópa skuldara í dag. Það er sem sagt ekki bara við núverandi stjórnarflokka að sakast varðandi hversu seint hefur gengið að taka á skuldavanda heimilanna, það er líka við þann flokk að sakast sem var hér við völd síðustu 18 ár.