138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, þetta er algjörlega hárrétt. Ég var ekki í ræðu minni að kasta rýrð á neina stjórnarflokka, ég sagði í restina: hefðum við borið gæfu til þess að gera það strax — (Gripið fram í: … Sjálfstæðisflokksins.) Já, já, við sátum í ríkisstjórn með Samfylkingunni í upphafi hrunsins alveg fram í febrúar árið 2008, en hefðum við bara gripið til þessara ráða strax. Ég var ekki að deila á neinn og ég er ekki að gera lítið úr þessum vandamálum. Ég ætla engum hæstv. ráðherra eða hv. þingmanni það að gera ekki allt sem hann telur rétt að gera og vilji ekki heimilunum vel, það er alveg af og frá.

Það sem kemur líka fram, og kemur fram í þeirri skýrslu sem við höfum verið að fjalla um, er einmitt þessi orðræða sem er hér á þinginu. Ég hef reynt að nálgast þessa umræðu og gerði það í sumar, ekki með neinum látum eða upphrópunum, ég hef ekki gert það. Þess vegna sagði ég að okkur hefur ekki tekist — ég var ekki að undanskilja mig frá því, en það er nú einu sinni þannig að það eru ákveðnir menn sem stýra yfirleitt, ég þekki það til sjós að þeir sem eru skipstjórar stýra skútunni.

Það getur vel verið að eitthvað í orðfari stjórnarandstöðunnar hafi gert það að verkum að menn hafi hrokkið í gírinn. Menn voru líka í þessu andrúmslofti sem við erum í í dag. Þetta eru ekki eðlilegir tímar sem við lifum hér á hinu háu Alþingi og í öllu þjóðfélaginu náttúrlega. Þess vegna fagna ég því að þessi þverpólitíski hópur fór að starfa saman eftir að tekin var ákvörðun um að efnahags- og skattanefnd færi í þessa vinnu. Ég er mjög glaður yfir því. En ég benti á það, og það væri mín persónulega skoðun, að réttara hefði verið að gera þetta strax. En ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér og virði yfirleitt skoðanir annarra.