138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

560. mál
[16:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem er 560. mál.

Hér er gengin áfram sú leið sem kannski má líkja við rústabjörgun, eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson ræddi um áðan. Við erum í sjálfu sér að vinna áfram á þeim erfiða skuldavanda sem er viðvarandi verkefni okkar þessi missirin og væri einfaldara ef við hefðum haft þá löggjöf sem ég mæli nú hér fyrir til að byggja á þegar þessar hamfarir dundu yfir.

Af því að hv. þm. Þráinn Bertelsson komst svo vel að orði áðan og rakti það að koma þyrfti í veg fyrir að við værum alltaf í aðgerðum sem fælust bara í að setja fötu undir leka þá er ég alveg sammála honum í því. Ég vil ekki túlka þau úrræði sem við höfum lagt til á þann veg að þar séum við að setja fötu undir leka. Þvert á móti erum við að reyna að koma öllu í horf, ekki þannig að við séum að þrautpína fólk, ekki þannig að við séum að gera fólki erfitt fyrir, heldur þvert á móti að gefa öllum færi á að komast undan skuldastöðu sem þeir ráða ekki við. Það eru engar einfaldar lausnir á þessum vanda. 20% niðurfellingin víðfræga er nefnilega ámóta gáfuleg lausn og sú að gera við 1/5 hluta af öllum þökum í bænum á kostnað ríkisins, óháð því hvort þau leka. Hvað gerir það fyrir fólkið sem býr í húsunum? Það gerir ekki mikið fyrir fólkið. Það er afskaplega dýr og óhagkvæm leið og hún gagnast nefnilega ekki þeim sem raunverulega eru með allt á floti. Þær leiðir sem við höfum lagt upp með, almenna greiðslujöfnunin og þessi víðtæku úrræði hér, eru einu leiðirnar sem tryggja fólki með mikla skuldabyrði, með gengistryggð lán, að komast raunverulega í skjól.

Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson rakti áðan eru auðvitað mörg flókin siðferðileg álitamál í þessum spurningum öllum saman. Ég held hins vegar að eina rétta leiðin sem við getum farið sé sú að auðvelda fólki að losna undan skuldsetningu sem það ræður ekki við en gera fólki sem fór varlega líka kleift að lifa í samræmi við það sem lagt var upp með. Það tryggir hina almennu greiðslujöfnun, að fólk geti greitt í samræmi við upphaflegar forsendur.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sem ég mæli hér fyrir um greiðsluaðlögun einstaklinga er byggt á ýmsum fyrirmyndum í löggjöf nágrannalandanna. Markmiðið er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og byrja upp á nýtt. Þeim einstaklingum fjölgar alltaf sem ekki standa lengur undir greiðslubyrði lána og hún hefur þyngst mikið undanfarin missiri. Við þurfum að koma sem flestum í gegnum þær efnahagslegu þrengingar sem að þjóðinni steðja án þess að beita úrræðum gjaldþrotaréttarins. Það er forsendan fyrir endurreisn samfélagsins og því hraðar sem þetta gengur, þeim mun fyrr getur endurskipulagning samfélagsins hafist.

Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Skilyrði fyrir greiðsluaðlögun er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þetta frumvarp er, eins og ég rakti, að miklu leyti byggt á norskum lögum um „gjeldsordning“ en í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku hafa einnig um margra ára skeið verið í gildi lög um greiðsluaðlögun.

Það er líka rétt að minna á að frumvarp af þessum toga og af þessari ætt var fyrst lagt fram hér af Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1995 og síðan í rykk í kjölfarið árum saman allt þar til það var síðast lagt fram, ef ég man rétt, árið 2006. Í kjölfarið var sett á fót nefnd af hálfu þáverandi viðskiptaráðherra sem hóf könnun á því hvort taka ætti upp ákvæði sem þessi í löggjöf. Það hefur með öðrum orðum staðið í stappi um það hvort þessa leið ætti að fara eða ekki í mjög langan tíma. Það er mjög mikilvægt að þessi löggjöf verði nú að veruleika því að hún tryggir rétt fólks til að losna undan skuldbindingum sem það ræður ekki við og að tekið sé á erfiðum skuldamálum á félagslegum forsendum en ekki á forsendum gjaldþrotaréttarins.

Þær breytingar sem eru helstar frá gildandi lögum um greiðsluaðlögun eru að öll mál er varða greiðsluaðlögun verða nú færð úr dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þetta er mjög mikilvægt því að þá felst í þessu sú viðurkenning að um félagslegt en ekki réttarfarslegt úrræði sé að ræða.

Í öðru lagi felur frumvarpið í sér að þeir sem leita þurfa greiðsluaðlögunar þurfa samkvæmt því einungis að fylla út eina umsókn um greiðsluaðlögun í stað þess að nú þarf að sækja annars vegar um greiðsluaðlögun vegna samningskrafna og hins vegar um tímabundna greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna.

Í þriðja lagi er lagt til að greiðsluaðlögun nái til bæði samningskrafna og allra veðkrafna en hingað til hefur aðeins verið mögulegt að fá greiðsluaðlögun vegna veðkrafna sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að það sé ekki lengur skilyrði fyrir því að fá umsókn um greiðsluaðlögun að umsækjandi hafi lögheimili á Íslandi. Þá auðveldum við einstaklingum sem borið hafa ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi að leita greiðsluaðlögunar. Það verður því ekki lengur skilyrði að atvinnurekstri hafi verið hætt en lagt til að það skilyrði verði áfram í lögum að aðeins megi rekja lítinn hluta af heildarskuldum til atvinnurekstrar.

Loks gerir frumvarpið ráð fyrir meira samræmi í meðferð og úrvinnslu greiðsluaðlögunarmála en nú er. Ætlunin er að ná samræmingu með því að setja samræmdar verklagsreglur um greiðsluaðlögun og að einn aðili tilnefni umsjónarmenn með greiðsluaðlögun og með því að leggja til að einn héraðsdómstóll fari með öll mál er varða greiðsluaðlögun.

Í frumvarpinu er umboðsmanni skuldara falið yfirgripsmikið hlutverk, en í frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu er lagt til að sett verði á fót sérstök stofnun er nefnist umboðsmaður skuldara. Gert er ráð fyrir að umboðsmaðurinn taki afstöðu til þess hvort veita á heimild til greiðsluaðlögunar. Ef heimild er veitt tilnefnir umboðsmaður umsjónarmann með greiðsluaðlögun og sá getur annaðhvort verið starfsmaður umboðsmanns skuldara eða verktaki hjá honum. Gert er ráð fyrir að umsjónarmenn séu löglærðir.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun verði alltaf í tveimur stigum. Alltaf skal byrja á að leita frjálsrar greiðsluaðlögunar þar sem umsjónarmaður reynir að ná samningi við kröfuhafa um greiðsluaðlögun. Ef samningar takast ekki við kröfuhafa getur skuldari krafist þess að málið verði sent héraðsdómi þar sem héraðsdómari úrskurðar um greiðsluaðlögun. Þvinguð greiðsluaðlögun af þeim toga líkist nokkuð núverandi fyrirkomulagi nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Vonir standa hins vegar til að norrænni fyrirmynd að hægt verði að ljúka sem flestum greiðsluaðlögunarmálum með frjálsum samningum og stytta þannig þann tíma sem meðferð mála tekur og minnka álagið á dómstóla vegna greiðsluaðlögunarmála.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umsjónarmaður geti krafist þess að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að skuldari selji eignir sem bersýnilega er ósanngjarnt að hann haldi eftir samhliða greiðsluaðlögun. Þá er það hlutverk umsjónarmanns að verðmeta þær eignir sem skuldari heldur eftir.

Við skiptingu greiðslna til kröfuhafa er í frumvarpinu gengið út frá því að eignum og afborgunum sé skipt hlutfallslega milli kröfuhafa eftir fjárhæð krafna. Þó er gert ráð fyrir nokkrum undantekningum frá meginreglunni og gert ráð fyrir að sérstakar reglur gildi um kröfur um opinber gjöld sem falla til eftir að beiðni um greiðsluaðlögun er samþykkt. Þá falla ekki undir greiðsluaðlögun kröfur um framfærslu og meðlagsskyldu og kröfur sem eiga rætur að rekja til refsiverðs athæfis. Einnig er lagt til að sérstakar reglur gildi um námslán enda eiga allir í greiðsluvanda nú rétt á frystingu námslána.

Í frumvarpinu eru sérstakar reglur um meðferð krafna sem tryggðar eru með veði. Það er lagt til að heimilt verði að fella afborganir af slíkum kröfum niður á greiðsluaðlögunartímanum. Þá er lagt til að veðkröfur umfram matsverð eignar verði að samningskröfum, sem verði hluti greiðsluaðlögunar og falli niður við lok greiðsluaðlögunartímans. Hins vegar er gert ráð fyrir að veðkröfur innan matsverðs eignar standi eftir við lok greiðsluaðlögunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun standi að jafnaði í tvö til fimm ár. Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem veita heimild til breytinga á greiðsluaðlögun á greiðsluaðlögunartíma, bæði að kröfu skuldara og kröfuhafa en það úrræði er ekki fyrir hendi samkvæmt gildandi lögum.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef rakið er hér á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál sem ég vona að fái skjóta meðferð í Alþingi. Ég mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd.