138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

560. mál
[16:26]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Glaður skal ég styðja þetta frumvarp sem enn einn liðinn í þeirri löngu keðju sértækra aðgerða sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til. Ég kem í andsvar vegna þess að ég hjó eftir því í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra að í hans huga virðast ekki komast að almennar aðgerðir né nokkur skilningur á nauðsyn þeirra. Hæstv. félagsmálaráðherra minntist á það hérna að sú leið að 20% skuldaniðurfelling væri álíka skynsamleg og hjá fólki sem býr við þakleka að gera við 20% af þakinu. Þetta á kannski að vera brandari en þetta er dauðans alvara, að sú aðgerð að gera við 20% af þakinu þýðir að fólk kemst í skjól og getur bjargað sér — nákvæmlega. Það er það sem við þurfum á að halda.

Hrunið þrengir að allri þjóðinni. Það eiga allir rétt á leiðréttingu mála sinna eftir því sem tök eru á. Það er enginn að tala um allsherjarskuldaniðurfellingu. Það er verið að tala um að gera öllum lífið léttara. Til þess er ríkisstjórnin.