138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

560. mál
[16:28]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég tók líkinguna um 20 prósentin sagði ég að þetta væri eins og að gera við 20% af öllum þökum, jafnvel þökum sem eru í lagi. Það er kostnaðurinn við 20% leiðina. Við erum með því að létta af öllum skuldum, jafnvel skuldum hjá fólki sem getur vandalítið staðið í skilum.

Hugmyndin um að hægt sé að snúa öllu við og gera okkur öll þannig sett að ekki hafi orðið hrun held ég að sé ekki raunhæf vegna þess að við erum fyrst og fremst sem samfélag að glíma við afleiðingar hækkunar á skuldum vegna gengisfalls, krónan féll. Og þangað til við getum leiðrétt þá stöðu og gengi krónunnar breytist þá er þetta kostnaður sem fallið hefur á samfélagið. Ef við ætlum að létta honum af skuldurum almennt þurfum við að flytja hann annað almennt.

Við höfum hins vegar gripið til margra almennra aðgerða, fyrst í haust með almennu greiðslujöfnuninni. Hún gefur öllum færi á að borga í samræmi við þær forsendur sem lagt var upp með í upphafi — öllum. Það er gert á kostnað kröfuhafa, ekki á kostnað ríkisins. Þess vegna er það svo mikilvæg aðgerð. Með sama hætti er ég núna að reyna að finna lausnir á þessum bílalánavanda og koma myntkörfulánunum þar í horf en á kostnað kröfuhafa, því að við ætlum ekki að ríkisvæða tjónið af þessu. Því að þá erum við náttúrlega að tína til sósíalisma andskotans ef við ætlum að láta einhverja aðra í samfélaginu, t.d. aldraða með skert lífeyrisréttindi, greiða fyrir lækkun skulda þeirra sem núna eru fullfrískir á vinnumarkaði. Það er náttúrlega ekki lausn sem getur gengið upp.

Þess vegna verðum við, held ég, að gæta ákveðins raunsæis í þessu. Ég held að við eigum að vinna áfram að þeim lausnum, eins og við erum að vinna að núna, að búa til leiðir sem þvinga kröfuhafa til að bera stærri og stærri hluta þessa kostnaðar og allan þennan kostnað en gæta þess að fara ekki að búa til einhverjar (Forseti hringir.) almennar lausnir sem fela í sér ríkisvæðingu þessa tjóns.