greiðsluaðlögun einstaklinga.
Virðulegi forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra notaði stærstan hluta tíma síns til að réttlæta fyrir mér og öðrum sem til heyra þær aðgerðir sem engrar réttlætingar er þörf á, þ.e. hinar ágætu sértæku aðgerðir sem gripið hefur verið til. Hins vegar hélt hæstv. ráðherra áfram að þverskallast við og taka líkinguna um að gert væri við 20% af öllum þökum í landinu — hvort sem þörf væri á viðgerðinni eða ekki.
Þessi líking stenst ekki. Hér varð allsherjarhrun. Það er ekkert þak í landinu sem ekki þarf á viðgerð að halda. Allir sem skulda húsnæðislán hafa orðið fyrir stökkbreyttum lánum, gengishruni og bankahruni með tilheyrandi forsendubresti. Það þarf að laga vanda allra. Það þarf að skipta því tjóni sem orðið hefur milli lántakenda og lánveitenda. Ég veit að þetta er ekki auðvelt hlutverk, en ég reikna líka með því að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið að sér ráðherraembætti til að eiga sjö dagana sæla.