138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:35]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á stofn embætti umboðsmanns skuldara en að sú stofnun verði byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Sú ágæta stofnun hefur verið starfrækt í rúmlega 13 ár, byggir á samkomulagi 17 aðila um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofunnar. Í ljósi þess að margir einstaklingar glíma nú við mikla fjárhagserfiðleika er mikilvægt að koma aðstoð við skuldara í sterkara og skýrara form en verið hefur. Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk umboðsmanns skuldara verði að veita einstaklingum í greiðsluerfiðleikum aðstoð, hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna, annast framkvæmd greiðsluaðlögunar, taka á móti erindum skuldara og annast almenna hagsmunagæslu fyrir skuldara. Þá er gert ráð fyrir að embætti umboðsmanns skuldara sinni ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna.

Markmiðið er að umboðsmaður skuldara verði ekki hlutlaus ráðgjafi eins og Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna er nú, heldur er stofnuninni ætlað að gæta hagsmuna skuldara. Það er einnig mikilvægt að til að umboðsmaður skuldara geti rækt hlutverk sitt sinni hann því verkefni að gæta að því að þróa og viðhalda framfærsluviðmiði sem sé ákveðinn grunnur fyrir mat á því hvað er sjálfbær skuldsetning af hálfu einstaklinga.

Í frumvarpinu er lagt til að þeir aðilar sem leggja stund á lánveitingar sem lánastofnanir greiði kostnað af starfsemi stofnunarinnar. Þetta er eðlilegt í ljósi þess að verkefni þessarar stofnunar munu snúa að ráðgjöf til einstaklinga um það hvernig best sé að haga greiðslu skulda og hvaða leiðir einstaklingum séu færar út úr skuldavanda. Það er því eðlilegt að þeir sem veita lánin beri hinn samfélagslega kostnað af útlánastarfsemi og aðgerðum til að koma henni í eðlilegt horf.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd.