138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi framfærsluviðmiðið mun það auðvitað nýtast almennt eins og t.d. við ákvörðun bóta og aðra slíka þætti. Við munum þá þurfa að svara því sem stjórnvöld og byggja ákvarðanir um lágmarksbætur á einhverjum rökstuðningi. Sama munu verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að gera þegar samið er um lægstu kjör, að þá verði einhver viðmið þar til grundvallar.

Mat á úrræðum bankanna af hálfu umboðsmanns skuldara er atriði sem kemur til greina. Hann hlýtur að þurfa að leiðsegja skuldurum í gegnum frumskóginn og hlýtur þar af leiðandi með einhverjum hætti að mynda sér skoðun á þeim úrræðum sem í boði eru.

Varðandi gjaldtökuna er rétt að hún er byggð á fordæminu frá Fjármálaeftirlitinu. Ástæðan fyrir því að við höfum þennan hátt á er sú að við teljum mjög mikilvægt að setja þessa svipu á bankana og fjármálastofnanirnar allar. Ef þær ætla ekki að vinna hratt og örugglega að meðferð erfiðra skuldamála verður umboðsmaður skuldara að vera í stakk búinn til að mæta því. Ef þá þarf að ráða hundruð eða þúsundir manna til að leysa þann vanda verður einfaldlega að gera það. Bankarnir verða að greiða þann kostnað. Þeir hafa þar af leiðandi með þessari aðferðafræði augljósan hag af því að hraða meðferð erfiðra skuldamála. Þeim mun hraðar sem þeir vinna, þeim mun minni verður kostnaður þeirra af kerfinu öllu saman. Ég held að í ljósi þess samfélagslega markmiðs að hraða meðferð erfiðra skuldamála sé þetta langbesta fjármögnunarleiðin.