138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[13:44]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Upphaf aðgerða má rekja til eldgoss sem hófst í Fimmvörðuhálsi 21. mars sl. en þá var þegar í stað lýst yfir efsta hættustigi, samhæfingarskipulag Almannavarna virkjað og gripið til rýminga sem nauðsynlegar voru taldar á svæðinu. Fjöldahjálparstöðvar voru virkjaðar og gripið til lokana á vegum og svæðum. Gefnar voru út daglegar tilkynningar um stöðu mála á gossvæðinu og leiðbeiningar um þær aðgangstakmarkanir sem í gangi voru á hverjum tíma. 12. apríl var viðbúnaður vegna gossins á Fimmvörðuhálsi færður niður um eitt stig, af neyðarstigi og niður á hættustig.

Þann 14. apríl hófst stærra gos í Eyjafjallajökli og strax um nóttina var svæðið umhverfis jökulinn og vestur um Landeyjar og Fljótshlíð rýmt. Viðbúnaður var færður aftur á neyðarstig. Til að verja brúna yfir Markarfljót voru rofin skörð í veginn og er talið að með þeirri aðgerð hafi tekist að bjarga brúnni og þar með miklum verðmætum.

Gosinu fylgdi mikið öskufall. Í fyrstu var öskufallið austan Eyjafjallajökuls en síðan þá hefur öskufallið verið hvað mest undir Eyjafjöllum. Öskufall hefur minnkað en það er þó áfram ásamt umtalsverðu öskufoki undir Eyjafjöllum og austur fyrir Mýrdalssand.

Reglulegir fundir hafa verið haldnir með vísindamönnum um framgang gossins. Vísindastofnanir fylgjast grannt með öllum mælakerfum sem gefið geta vísbendingar um framgang gossins og breytingar í því. Að auki hefur Landhelgisgæsla Íslands farið í fjölda flugferða með vísindamenn, bæði á flugvélinni TF-Sif og þyrlum, til að meta ástandið. Lögreglu- og björgunarsveitir hafa aðstoðað íbúa á margan hátt, m.a. með því að sinna lokunum vega og aðstoða við smölun og umönnun búfjár. Þá hafa björgunarsveitir aðstoðað bændur við að moka ösku af þökum og lagfæringar á húsum. Í fyrstu sinntu björgunarsveitir á svæðinu þessum verkefnum en eftir því sem á hefur liðið hafa björgunarsveitir annars staðar af landinu komið til aðstoðar. Rauði kross Íslands hefur ásamt starfsmönnum heilbrigðisgeirans sinnt áfallahjálp og öðrum sálrænum stuðningi. Í Heimalandi undir Eyjafjöllum hefur verið athvarf fyrir fólk undan Eyjafjöllum þar sem boðið hefur verið upp á mat og aðra aðhlynningu. Þar hefur fólk getað leitað skjóls undan öskufalli.

Allt frá því að verulega fór að bera á öskufalli undir Eyjafjöllum hefur íbúum þar staðið til boða aðstoð við að fara af svæðinu. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur boðið þeim sem það vilja þiggja húsnæði á Hvolsvelli og fleiri húsnæðisúrræði hafa verið boðin fram. Fundað var með íbúum á svæðinu í gær á Gunnarshólma í Landeyjum, Heimalandi undir Eyjafjöllum, Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri. Á þessum fundum voru ríkislögreglustjóri ásamt starfsmönnum heilbrigðiseftirlits, Matvælastofnunar, lögreglustjóranum á Hvolsvelli og fulltrúum Bjargráðasjóðs, Veðurstofu og Rauða kross Íslands. Í dag eru áformaðir fundir á Laugalandi í Landssveit og í Vestmannaeyjum, og á Hvolsvelli og Hellu á morgun. Á þessum fundum er farið yfir stöðuna, spurningum íbúa svarað og tekið á móti ábendingum um það sem betur má fara og verður þeim atriðum komið til hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana. Þá hefur þjónustumiðstöð verið komið á fót á grundvelli heimildar í 14. gr. laga um almannavarnir. Til að byrja með verður þjónustumiðstöð opnuð á Heimalandi og í Vík og síðan á öðrum stöðum eftir þörfum. Verkefni þjónustumiðstöðvanna felast einkum í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá aðila sem hafa orðið fyrir tjóni og sem hin tiltekna hætta hefur haft önnur bein áhrif á. Fyrirkomulag verður þannig að þjónusta verður veitt á mismunandi stöðum og fyrir fram auglýstum tímum. Margir aðilar koma að rekstri þjónustumiðstöðvarinnar auk Rauða krossins og sveitarfélaganna.

Mikil þörf hefur verið fyrir miðlun upplýsinga af gangi eldgossins í Eyjafjallajökli og á aðgerðum í tengslum við það. Skjótt var brugðist við þessu með því að setja á fót sérstakt teymi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð og á Hvolsfelli til að sinna þessu. Að því verki hafa komið fjölmiðlafulltrúar frá ráðuneytum og stofnunum auk aðstoðar fagfólks úti í bæ. Fjölmiðlateymi í Skógarhlíð tekur að sér að sinna þessari samræmingu. Komið hefur verið upp fjölmiðlamiðstöðvum í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og á Hvolsvelli. Þar hafa síðustu dagar verið upplýsingafundir fyrir fjölmiðlafólk þar sem jarðvísindamenn, veðurfræðingar og fulltrúar aðgerðastjórnar hafa greint frá ástandi mála og svarað spurningum. Til þessa hafa einkum erlendir fjölmiðlar nýtt sér þessa þjónustu en áformað er að bjóða hana áfram næstu daga enda hefur hún mælst vel fyrir.

Vegna eldsumbrotanna hefur birgðastaða í landinu verið könnuð sérstaklega. Ekki kemur til skorts á matvælum þar sem aðeins mjög viðkvæm matvæli eru flutt með flugi, eins og t.d. viðkvæm salöt. Hvað varðar nauðsynleg lyf og hjúkrunarvörur er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af skorti á slíku. Almannavarnir eru í stöðugu sambandi við fjarskipta-, veitu- og orkufyrirtæki til að fylgjast með stöðu mála hjá þeim og fulltrúar þeirra starfa í samhæfingarmiðstöðinni.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu ítreka ég þakkir til lögreglu, björgunarsveita og viðbragðsaðila allra og þakka þeim fyrir þeirra vandasömu störf. Einnig vil ég óska íbúum svæðisins velfarnaðar.