138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

viðbragðsáætlun fyrir flug vegna eldgosa.

[14:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og fyrri ræðumenn og beina máli mínu til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í ljósi þeirra áhrifa sem eldgosið í Eyjafjallajökli hefur haft á flugsamgöngur í heiminum að undanförnu hafa vaknað upp spurningar um öryggi flugsamgangna hér á landi, jafnt innanlandsflugs sem flugs til og frá Íslandi.

Það er ljóst að meiri háttar eldgos getur haft mikil áhrif á flugsamgöngur hér á landi og tafið flug innan lands sem utan. Ég spyr því hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hvort í þessu samhengi sé til einhver viðbragðsáætlun vegna eldgosa varðandi flugsamgöngur innan lands og til og frá landinu, og ef ekki hvort þá sé unnið að gerð slíkrar áætlunar af hálfu ráðuneytisins.

Í þessu sambandi þarf ekki aðeins að huga að viðbrögðum vegna flugumferðar í háloftunum heldur þarf að mínu mati ekki síður að kanna hvernig viðbúnaði flugvalla er háttað gagnvart gjóskufalli og öðru sem kanna að leiða af stærri eldgosum. Þetta á að mínu viti ekki síður við um varaflugvelli vegna millilandaflugs en aðalflugvelli landsins.

Ég spyr einnig hæstv. ráðherra hvernig samskiptum ráðuneytisins við önnur ríki og flugmálayfirvöld hefur verið háttað varðandi áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli og hvert framhaldið á þeim samskiptum gæti orðið að mati ráðherrans í ljósi þess sem ég hef hér sagt. Hvaða reynslu má draga af viðbrögðum annarra þjóða hvað flugumferð varðar og við eldgosi af því tagi sem hér hefur verið?

Virðulegi forseti. Það er auðvelt að vekja upp ótta meðal fólks um það sem hugsanlega getur gerst í kjölfar meiri háttar eldgosa hjá þeim sem kjósa að gera svo. Reyndan af eldgosinu í Eyjafjallajökli hvað þetta varðar og góð viðbrögð stjórnvalda eru til vitnis um það að með vel skipulögðum aðgerðum er hægt að bregðast við þannig að vel fari. Því hlýtur að vera afar mikilvægt að í landinu sé til skýr áætlun um viðbrögð við slíkum náttúruhamförum (Forseti hringir.) þannig að ljóst sé hvernig brugðist verði við þeim og þeim aðstæðum sem upp kunna að koma.