138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

viðbragðsáætlun fyrir flug vegna eldgosa.

[14:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara hv. þingmanni um samgöngur til og frá landinu, bæði í þeirri stöðu sem við höfum verið í frá því á fimmtudaginn og síðan því sem gæti hugsanlega gerst við meiri háttar eldgos. Áætlun er svo gott sem tilbúin, það er búið að hugsa mikið í samgönguráðuneytinu um hvað gerist ef t.d. Keflavíkurflugvöllur lokast og hvað við þurfum þá að gera á varaflugvöllum, hvort sem það eru Egilsstaðir, Akureyri eða Reykjavík. Sú áætlun er sem sagt til og er unnið eftir henni.

Svo horfum við til þess í ráðuneytinu hvað gerist ef allt flug til Íslands stoppar, ekkert verður flogið. Þá eru til plön sem unnið verður eftir. Akkúrat í dag kom ferjan Norræna til Seyðisfjarðar sem leiðir hugann að því að þar eru þá farþegaflutningar. Norræna siglir sem betur fer á veturna núna og hún kom sem sagt í morgun með mjög marga farþega, óvenjulega marga farþega.

Mér er ljúft og skylt að segja frá því að ég hef átt samtal við forráðamenn Norrænu um þetta mál, m.a. um þá farþega sem koma til landsins núna, alveg eins og ég hef rætt við forsvarsmenn flugfélaganna um þá farþega sem eru strandaglópar úti og hafa ekki komist heim þannig að þetta er allt saman, skulum við segja, á mjög góðu vinnslustigi. Það er ekki beint hægt að segja að allt hafi verið til hvað þetta varðar en ég leyfi mér að halda því fram að við séum alveg á réttri leið hvað varðar að vinna áætlun og upphugsa alla mögulega kosti sem gætu komið upp við það ástand sem gæti skapast hér verði meiri háttar eldgos eða flugsamgöngur stoppa í langan tíma.

Virðulegi forseti. Þótt alþingismenn og aðrir hafi séð það á vefmiðlum í dag vil ég geta þess að það er í raun og veru aðdáunarvert hvað flugfélög, og þá alveg sérstaklega Icelandair, hafa þó gert mikið, verið tilbúin til að (Forseti hringir.) stökkva með margar vélar inn á þá flugvelli í nágrannalöndum okkar sem eru færir í hvert og eitt skipti. Þetta held ég að hafi tekist bara mjög vel hjá (Forseti hringir.) flugfélögunum eins og það hefur gengið hingað til.