138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

rýmingaráætlun fyrir búfé og hreinsun ösku af túnum.

[14:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það verður að hæla hv. þingmanni fyrir mikla hógværð en þó að gefa ráðherra tækifæri til að svara betur því að hann hefði ekki getað það ef hv. þingmaður hefði ekki komið hingað upp í millitíðinni. Takk fyrir það.

Síðan er verið að skrá og fara yfir heybirgðir, ekki aðeins á þessu svæði heldur á landinu öllu þannig að við vitum nákvæmlega hverjir möguleikar okkar eru til að bregðast við. Það er hægt að hafa fé á húsi og það er í lagi með nautgripi en vandi verður með fé í sauðburði þegar frá líður og þá verðum við að vera líka með tiltæka viðbragðsáætlun. Það er ekkert smámál að ætla að flytja búfé langa vegu en allt er þetta samt til skoðunar. Það verður allt gert til þess að bæta tjón bænda á svæðinu og tryggja heilsu og gott ástand bústofnsins og enn fremur framtíðarmöguleika til landbúnaðar og búsetu á þessum svæðum. Þetta er allt komið í gang og af hálfu ráðuneytisins (Forseti hringir.) og stofnana þess ætlum við að gera allt sem við getum til að standa við bakið á fólkinu sem þarna býr þannig að það geti tekist á við þau vandamál (Forseti hringir.) sem nú steðja að.