138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti og fleira, frá hv. þm. Helga Hjörvar og fleirum. Eins og segir í nefndaráliti fékk nefndin á sinn fund Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd og fjallaði um umsagnir sem bárust frá Alþýðusambandi Íslands, embætti sérstaks saksóknara, Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Neytendastofu, réttarfarsnefnd, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, tollstjóranum í Reykjavík og Viðskiptaráði Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við XXVII. kafla laganna þess efnis að tímamörk og frestir til að rifta ráðstöfunum þrotamanns skv. XX. kafla laganna skuli á tímabilinu 6. október 2008 til 31. desember 2011 vera fjögur ár.

Nefndin ræddi þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í XX. kafla gjaldþrotalaganna er að finna almennar reglur um riftun. Eru riftunarreglur í 131.–139. gr. bundnar við nánar tilgreind atvik sem átt hafa sér stað á tilteknu tímabili fyrir frestdag við skiptin. Þessir tímafrestir eru í flestum tilvikum sex mánuðir en rýmri frestir, allt upp í tvö ár, geta átt við þegar í hlut eiga þeir sem eru nákomnir þrotamanni. Með riftunarreglunum er þrotabúi gert kleift að ná undir skiptin eignum sem ráðstafað hefur verið í aðdraganda skipta eða leiðrétta mismun milli kröfuhafa og tryggja jafnræði meðal lánardrottna skuldarans. Flestar riftunarreglur eru hlutlægar í þeim skilningi að þrotabúið þarf ekki að sanna að sá sem riftunarkrafa beinist að hafi verið grandsamur um fjárhag skuldara á þeim tíma sem riftanleg ráðstöfun fór fram.

Í umsögn réttarfarsnefndar um málið kom m.a. fram gagnrýni á það að með frumvarpinu væri lagt til að allir frestir til að rifta ráðstöfunum verði rýmkaðir tímabundið í fjögur ár óháð því hvort um sex mánaða frest eða allt að tveggja ára frest væri að ræða samkvæmt lögunum. Samkvæmt frumvarpinu skal riftunarfrestur ná aftur til 6. október 2008 og eru því sex mánaða frestir sem liðu frá þeim tíma löngu liðnir. Af því leiðir að ráðstöfun gæti verið riftanleg yrði frumvarpið að lögum óbreytt þótt svo hafi ekki verið samkvæmt gildandi lögum í nærfellt sautján mánuði. Réttarfarsnefnd benti á að með þessu fæli frumvarpið í sér afturvirkni sem hlyti að orka tvímælis hvort staðist gæti ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttarins. Allsherjarnefnd taldi þessar athugasemdir réttmætar og leggur því til breytingu á frumvarpinu í samræmi við almennar lagaskilareglur þannig að ekki verði hróflað við þeim tímafrestum sem liðnir eru, en þeir frestir sem ekki eru liðnir, þ.e. tveggja ára frestir, verði rýmkaðir. Nefndin tekur fram í því sambandi að mál vegna skipta verði sífellt flóknari og því tímafrekara að fara t.d. ofan í það hvort kröfuhöfum hafi verið mismunað eða hvort um málamyndagerninga hafi verið að ræða. Nefndin telur því nauðsynlegt að framlengja frestina og leggur til að þeir frestir verði rýmkaðir tímabundið þannig að þeir gildi í þeim málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012.

Nefndin ræddi einnig um málshöfðunarfresti gjaldþrotalaga á fundum sínum, en samkvæmt 148. gr. þeirra verða þrotabú að höfða riftunarmál innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess fyrst kost að gera kröfuna. Samkvæmt gildandi lögum um fjármálafyrirtæki er málshöfðunarfresturinn tvö ár. Í umsögn réttarfarsnefndar er tekið fram að þegar krafa um gjaldþrotaskipti hefur verið tekin til greina liggur fyrir frestdagur við skiptin, en af honum ráðast riftunarfrestir. Réttarfarsnefnd bendir sérstaklega á að á hinn bóginn sé hættara við að málshöfðunarfrestir 148. gr. laganna renni út ef skiptin ganga ekki greiðlega. Nefndin telur ljóst að við þessu þurfi að bregðast með sömu rökum og búa að baki tillögum um lengingu riftunarfresta. Nefndin leggur því til að við bráðabirgðaákvæðið bætist að málshöfðunarfrestur skuli vera tólf mánaða frestur fram til ársloka 2012.

Allsherjarnefnd tekur fram í nefndaráliti sínu að við þær aðstæður sem nú eru í viðskiptalífinu sé í reynd verið að gefa aðilum lengri frest til að vera í rekstri án þess að beita vanefndaúrræðum, en telur að sama skapi sé nauðsynlegt að veita aðhald og lengja frest ekki um of til að gæta jafnræðis gagnvart réttindum kröfuhafa. Telur nefndin að með lögfestingu þessara lengdu fresta sé meðalhófs gætt og að þetta sé mikilvægur þáttur í því að byggja upp traust í þjóðfélaginu að nýju.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem sjá má í þingskjalinu. Vísa ég til þess.

Um þessa niðurstöðu nefndarinnar og þetta nefndarálit var samstaða í allsherjarnefnd.

Undir nefndarálit rituðu allir þeir nefndarmenn sem viðstaddir voru, það voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður nefndarinnar, sá sem hér stendur, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal og Róbert Marshall. Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þór Saari er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og lýsti sig samþykkan þessu áliti.

Ég vildi aðeins árétta, hæstv. forseti, að þegar málið kom fyrst til umræðu á vettvangi allsherjarnefndar, komu fram innan nefndarinnar ákveðnar áhyggjur af þeim þætti sem réttarfarsnefnd gerði síðan athugasemdir við. Það voru athugasemdir um að með frumvarpinu kynni að vera gengið gegn hefðbundnum sjónarmiðum um afturvirkni laga og lagaskil þannig að aðilar gætu lent í því samkvæmt frumvarpinu, ef það verður að lögum, að eftir á væru settar reglur sem gerðu stöðu þeirra verri en voru fyrir hendi þegar þau atvik áttu sér stað sem lögin fjalla um. Þetta atriði var í raun og veru það sem fyrst og fremst var tekist á um í nefndinni og réttarfarsnefnd kom með athugasemdir um það. Við endanlega útgáfu málsins var haft samráð við fulltrúa réttarfarsnefndar. Til þess að upplýsa þingmenn um það er réttarfarsnefnd sérfræðinganefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar um réttarfarsleg málefni. Innan þeirrar nefndar eru þrír sérfræðingar á sviði réttarfars, og alla vega á mínum ferli í allsherjarnefnd hafa orð þeirra haft mikið vægi, enda er um að ræða viðurkennda fræðimenn á því sviði.

Niðurstaðan var sem sagt sú sem hér segir. Það náðist samstaða innan nefndarinnar og samráð var haft við réttarfarsnefnd um þetta. Ég held að nefndarmönnum hafi verið ljóst að hér er verið að fara inn á viðkvæmt svið vegna þess að það er erfitt að ætla að taka ákvarðanir um breytingar á réttarfarslögum í ljósi tímabundinna, skammvinnra aðstæðna. Það verður að fara gætilega þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, ekki síst þegar um er að ræða ákvarðanir sem hugsanlega gætu haft í för með sér einhverja afturvirkni sem mögulega yrði vísað á bug af dómstólum ef mál færu þangað. Hinn almenni réttarpraxís hér á landi er sá að lög sem eru afturvirk og fela í sér íþyngingu fyrir aðila sem í hlut eiga eru talin fara í bága við stjórnarskrá, þannig að þetta er svið sem þarf að fara mjög gætilega að.

Niðurstaðan var sem sagt ákveðin í sameiningu og nefndin stendur sameiginlega að þessu áliti eins og fram kemur í því nefndaráliti sem hér liggur fyrir.