138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. allsherjarnefnd kærlega fyrir þessar tillögur og fyrir að taka þetta mikilvæga mál úr nefnd og setja það til afgreiðslu hér inn í þingsalinn. Ég vil fyrst aðeins segja um afturvirknisjónarmiðin að þau eru til komin löngu eftir að málið var lagt fram, því að málið var fyrst lagt fram í þessum búningi í aprílbyrjun árið 2009, þegar ekki voru enn þá liðnir sex mánuðir, hvað þá 24 mánuðir frá hruninu. Það er því fyrst og fremst vegna þess hversu langan tíma það tekur að afgreiða mál í þinginu að það nær ekki fram á því þingi þegar það er lagt fram. Það nær heldur ekki afgreiðslu á sumarþinginu þegar það var lagt fram öðru sinni og er síðan hér til meðhöndlunar þriðja sinni. Á þeim tíma sem leið frá því það kom fyrst fram og til dagsins í dag, komu fram afturvirknisjónarmið og ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum. Það er auðvitað mikilvægt að um leið og við teygjum arm laganna eins langt og unnt er eftir brotastarfsemi hvers konar, er um leið mikilvægt að við gætum meðalhófs og þess að þau lög sem við setjum hér haldi fyrir dómi. Ég tel að með þeim breytingum sem allsherjarnefnd hefur gert sé öllum meginmarkmiðum frumvarpsins náð því að það nær til þess að lengja tveggja ára frestinn í fjögur ár. Í dag, 20. apríl eða svo, eru ekki tvö ár liðin í langflestum þeim tilfellum sem við munum þurfa að fást við.

Ástæða þess að þessi löggjöf er afar mikilvæg er einfaldlega sú að það er brýnt að skapa sátt í samfélaginu, að mönnum haldist það ekki uppi að tæma félög, að hreinsa eignir út úr félögum sem eru á leið í þrot, að koma eignum yfir á maka sína eða nákomna ættingja með óeðlilegum hætti eða að mismuna þannig aðilum í aðdraganda galdþrots. Það er þó því miður algengt vegna þess að þá gætir oft ákveðinnar örvæntingar hjá mönnum um eigin hag og nákominna og um framtíðarhag. Það skapar freistnivanda sem sagan sýnir okkur oft og iðulega að hefur leitt til brotastarfsemi. Það er því miður ástæða til að ætla að þegar fjárhagsvandinn er jafnvíðtækur og hann er í okkar samfélagi, hafi slík brotastarfsemi verið talsvert víðtæk. Þess vegna er mikilvægt að skiptastjórar, sem eru þeir sýslunnar menn sem við skipum yfir þessi bú, hafi mjög rúmar heimildir til þess að rifta þessum gjörningum. Þeir sem hafa áhyggjur af því að fjögur árin séu síðan ekki nóg eiga að hafa í huga að hér erum við að lengja heimildir skiptastjóra til þess að rifta gjörningunum án þess að þurfa að færa sönnur á að menn hafi verið sér meðvitaðir um það sem gert var.

Eftir sem áður munu skiptastjórar geta, jafnvel þó að fjögur árin séu liðin, stefnt til riftunar og höfðað mál og annað þess háttar, geti þeir fært sönnur á það sem ranglega var gert. Með því að sá frestur sem skiptastjórinn hefur til þess að grípa til aðgerða er lengdur úr sex mánuðum í tólf held ég að búið sé að grípa til þeirra ráðstafana sem hægt er að grípa til núna á þessari stundu, þótt það hefði auðvitað verið árangursríkara ef það hefði tekist að gera málið að lögum þegar er það kom fram. En ég held að það sé sannarlega fagnaðarefni að hér kemur á þessum vetri annað þingmannafrumvarpið til afgreiðslu. Það hefur því miður ekki verið hluti af okkar hefð og það er eitthvað sem við þurfum sannarlega að breyta.

Ég þakka fyrir hina víðtæku samstöðu sem hefur náðst um málið í öllum stjórnmálaflokkum hér á þinginu og í allsherjarnefndinni allri. Ég þakka þann mikla stuðning sem ég hef fundið við málið úti í samfélaginu, þar sem menn þekkja svo ótalmargar sögur af því að sumir hafa því miður komist upp með að grípa til óeðlilegra ráðstafana í aðdraganda gjaldþrots og hafa þannig skaðað kröfuhafa sína enn þá meira en þegar var orðið og með fullkomlega óþolandi hætti. Það er þess vegna eðlilega krafa um að löggjafinn geri allt sem hann getur til þess að koma í veg fyrir að mönnum haldist uppi slíkt athæfi og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir það. Ég tel að það megi segja að með þessum breytingum og samþykkt frumvarpsins og því að það verði að lögum, sé því náð.