138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:17]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vinnumarkaðsstofnun. Með frumvarpi þessu er lagt til að Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins verði sameinuð í eina stofnun, Vinnumarkaðsstofnun, sem hefur það hlutverk að annast stjórnsýslu á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála. Meginmarkmið sameiningarinnar er að koma á fót einni öflugri opinberri stofnun sem fjallar um málefni vinnumarkaðarins í víðum skilningi þar sem áhersla verður lögð á að skapa atvinnulífinu og vinnumarkaðnum trausta umgjörð þar sem saman fari öruggt og gott starfsumhverfi, sveigjanleiki, öflugt stuðningsnet og aðhald. Með sameiningunni er þess vænst að fá betri heildarsýn yfir þau verkefni sem nú eru á hendi tveggja stofnana, en varða öll aðstæður á vinnumarkaði með einum eða öðrum hætti, sem og yfirsýn yfir þjónustu við þá sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði eða vilja vera það.

Hlutverk hinnar nýju stofnunar verður víðfeðmt, enda gert ráð fyrir að stofnunin sinni þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins hafa sinnt til þessa lögum samkvæmt. Hér má nefna framkvæmd laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, framkvæmd laga um vinnumarkaðsaðgerðir og laga um atvinnuleysistryggingar, auk annarra verkefna sem stofnununum tveimur hefur verið falið að sinna samkvæmt öðrum lögum.

Jafnframt er stofnuninni ætlað að veita atvinnuleitendum, þar á meðal atvinnuleitendum með skerta starfshæfni, þjónustu í formi ráðgjafar, virkra vinnumarkaðsúrræða og vinnumiðlunar, þar með talið starfshæfnismats, starfsendurhæfingar og sérhæfðra atvinnutilboða eftir því sem við á hverju sinni, en áfram er gert ráð fyrir að þjónustan miðist við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Þá er stofnuninni ætlað að halda utan um gerð starfshæfnismats, þar á meðal að þróa og ákvarða hvaða mælitæki og aðferðir skuli nýtt til mats á starfshæfni í samstarfi við aðra aðila sem starfa á sviði starfsendurhæfingar, þar með talið Starfsendurhæfingarsjóð. Einnig er stofnuninni ætla að samhæfa skipulag og fjármögnun starfsendurhæfingarúrræða af hálfu hins opinbera.

Virðulegi forseti. Ég er þess fullviss að með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins megi bæta þjónustu og ná auknum árangri sem mun stuðla að því að fleiri geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði. Við höfum á undanförnum árum lagt síaukna áherslu á starfsendurhæfingu. Í því skyni hefur verið byggður upp mikill sjóður sem á að sinna því verkefni í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Í framhaldi af þessu frumvarpi er ég með í undirbúningi að skipa samstarfsnefnd um starfsendurhæfingu í samræmi við stöðugleikasáttmálann og ákvæði hans frá í júní 2009. Í henni verða fulltrúar aðila stöðugleikasáttmálans, Öryrkjabandalagsins, lífeyrissjóðanna, og Hlutverks. Gert er ráð fyrir að nefndin vinni að því að samþætta starf hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins að málefnum starfsendurhæfingar, meðal annars með tilliti til samræmdra reglna um mat á starfshæfni og vinnugetu. Markmiðið er að ná sameiginlegri niðurstöðu þannig að allir landsmenn njóti sama réttar til starfsendurhæfingar og starfshæfingar þótt greiðsluskylda vegna bæði bóta og þjónustu sé hjá ólíkum aðilum.

Ég legg áherslu á að við sameiningu stofnananna er ekki gert ráð fyrir breytingum á tilgangi eftirlits á vinnustöðum sem fram fer á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þannig er gert ráð fyrir að áfram verði tryggt að Ísland standi við allar alþjóðlegar skuldbindingar á sviði vinnuverndarmála, þar með talið samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu á þessu sviði.

Rétt er að benda á að gert er ráð fyrir að atvinnurekendur muni áfram bera ábyrgð á gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum, meðal annars um sérstakt áhættumat þar sem áhætta í starfi er metin með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Verður að líta á slíka áætlunargerð sem eina af grunnstoðum þess að komið verði í veg fyrir að starfsmenn heltist úr lestinni af vinnumarkaði þar sem ætla má að sé farið eftir slíkri áætlun megi draga úr líkum á að atvinnutengdir sjúkdómar eða önnur óþægindi leiði til þess að starfsmenn geti ekki lengur sinnt störfum sínum.

Þá má gera ráð fyrir að ákveðin rekstrarhagræðing náist fram við sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins með samnýtingu stoðþjónustu og sameiningu þjónustustöðva, sem staðsettar eru vítt og breitt um landið, en stefnt er að því að þjónustustöðvarnar verði sameinaðar í eina þjónustustöð vinnumarkaðsmála á hverjum stað. Þessar breytingar munu tvímælalaust koma viðskiptavinum til góða og jafnframt leiða til hagræðingar í rekstri. Með þessu móti er stefnt að því að bæta þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á hverjum stað með faglega sterkari starfseiningum en áður. Við vitum að það er brýnt við þær aðstæður sem við búum núna í ríkisrekstri að horfa til hagræðingarkosta í hvívetna. Ef okkur á að takast að verja grunnþjónustu verðum við að vera tilbúin að spara í hvívetna í stofnanauppbyggingu hins opinbera og þessi breyting er auðvitað að hluta til ætluð til þess að mæta því sjónarmiði að búa í haginn fyrir hagræðingu á næstu árum.

Virðulegi forseti. Eitt af mörgum verkefnum nýrrar stofnunar verður að sinna rannsóknum á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála en ætla verður að koma megi á öflugu rannsóknarsviði í fyllingu tímans sem hefði meiri getu en nú er til staðar í stofnununum tveimur til skipulegra rannsókna á þessum sviðum. Þetta getur skipt verulegu máli við framkvæmd stærri rannsókna sem Ísland hefur áhuga á að gerast aðili að á vettvangi Evrópusambandsins, svo sem þeirra sem framkvæmdar eru á vegum stofnunar Evrópusambandsins um bætt starfsskilyrði og lífskjör, og Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar.

Lagt er til að hin nýja sameinaða stofnun starfi undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðherra en ráðherra skipi henni 11 manna stjórn sem í eiga sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem og Öryrkjabandalags Íslands auk formanns og varaformanns sem ráðherra skipar án tilnefningar. Samkvæmt frumvarpinu mun stjórn Vinnumarkaðsstofnunar samþykkja í byrjun árs starfsáætlun fyrir stofnunina. Hún mun einnig fjalla um rekstraráætlun fyrir stofnunina og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórninni er ætlað að vera forstjóra stofnunarinnar og félags- og tryggingamálaráðherra til ráðgjafar í faglegri stefnumótun og öðrum málum á sviði vinnumarkaðs- og vinnuverndarmála, gera tillögur að úrbótum, þar á meðal lagabreytingum eða setningu reglugerða, eða annarra reglna, telji hún þörf á. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra leiti umsagnar stjórnar við undirbúning að setningu nýrra laga og reglugerða á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála.

Áfram er lögð mikil áhersla á náið samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins um þróun og skipulag á sviði vinnumarkaðsmála og vinnuverndarmála í því skyni að samhæfa stefnumörkun sem og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Í þessu skyni er í frumvarpinu lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra leiði sérstakt samráð aðila vinnumarkaðarins og að samráðsfundir verði haldnir a.m.k. mánaðarlega. Það samráð sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er nú þegar hafið og við vonumst til þess að koma með þessu í fastara form samráði milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins á þann veg að allir aðilar að stöðugleikasáttmálanum og fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands eigi aðgang að reglulegu samráði innan ramma félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Að mínu mati má gera ráð fyrir að sameining þessara stofnana í eina öfluga stofnun í stað tveggja smærri stofnana leiði til hagræðingar til lengri tíma litið og standa vonir til þess að þannig verði unnt að tryggja lögbundna þjónustu á sviði vinnumarkaðsmála þrátt fyrir kröfu um aðhald í rekstri. Í þessu sambandi er rétt að benda á að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum megi gera ráð fyrir að útgjöld ríkisins lækki um 45 millj. kr. á ári.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til félags- og tryggingamálanefndar.