138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara seinni spurningunni fyrst. Það er niðurstaða okkar að þessi sameining brjóti ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði vinnuverndarmála. Það er niðurstaða þeirra sérfræðinga sem hafa kannað málið og unnið að undirbúningi sameiningarinnar. Við munum að sjálfsögðu búa stofnunina út með þeim hætti að fullkomlega tryggt sé að ekki verði um nein brot að ræða hvað það varðar.

Varðandi spurninguna um hvort til grundvallar liggi greining sem náðst hafi víðtæk sátt um meðal starfsmanna beggja stofnana, þá liggur að baki ákvörðuninni greining sem byggð er á vinnu ráðgjafa sem við fengum til verksins. Þeir greindu verkflæði í báðum stofnununum, töluðu við mikinn fjölda starfsmanna, fóru yfir málin og gerðu tillögur sínar í framhaldi af því. Með sérstakri verkefnisstjórn sem mun starfa á vettvangi ráðuneytisins munum við vinna með stofnunum og starfsmönnum og draga alla saman í vinnu hvað það varðar, þannig að ráðgjafar komi að því að útfæra þetta með starfsmönnum. Við viljum líka vinna þetta í mikilli sátt við aðila vinnumarkaðarins og þess vegna verður skipuð sérstök samráðsnefnd um verkefnið með aðilum vinnumarkaðarins og öllum aðilum stöðugleikasáttmálans til að þeir komi sínum sjónarmiðum að. Auðvitað skipta sjónarmið hinnar hefðbundnu verkalýðshreyfingar miklu máli enda brenna vinnuverndarmál miklu þyngra á hinni almennu verkalýðshreyfingu vegna þess að ástand í vinnuvernd er yfirleitt verra á hinum almenna markaði heldur en í opinbera geiranum og almenni markaðurinn er 80% af vinnumarkaðnum. Þannig að við verðum auðvitað að vinna þetta í góðri samvinnu við Alþýðusamband Íslands og hyggjumst gera það.