138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra ætlar að hafa víðtækt samráð við starfsfólk þessara tveggja stofnana við sameininguna og ég vil bara geta þess að vinnuvernd beinist fyrst og fremst að forvörnum gegn slysum og atvinnutengdum sjúkdómum. Vinnuvernd er fyrst og fremst langtímamarkmið á meðan atvinnuleysi er oft brýnna skammtímavandamál, þannig að ákveðin hætta er á því að verkefni Vinnumálastofnunar verði ofan á og taki til sín meira fjármagn heldur en verkefni vinnuverndar.

Annað sem ég vil líka hvetja til að verði skoðað er hvort hægt sé að ná fram þeirri hagræðingu sem á að nást með sameiningunni með því að skoða aukið rekstrarlegt samstarf í gegnum sameiginlega notkun (Forseti hringir.) á stoðþjónustu.