138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:43]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar og tek heils hugar undir með honum, ég tel mikilvægt að Tryggingastofnun verði hluti af þessum stofnunum á sóknarsvæðum landshluta og að vel verði ígrundað hvar þessar sterku stofnanir verði settar niður. Það verður að sjálfsögðu unnið í samráði við önnur ráðuneyti og opinberar stofnanir.

Mig langar til að vísa í d-lið í 2. gr. frumvarpsins þar sem segir að hafa eigi samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á. Í ljósi hins mikilvæga hlutverks sveitarfélaga í baráttu gegn atvinnuleysi og ýmiss konar atvinnusköpunarverkefna sem sveitarfélögin standa að, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig samstarfi við sveitarfélögin verður háttað í því að glíma við atvinnuleysi.