138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við eigum mjög gott og traust samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga í viðureigninni við atvinnuleysið. Við gerum ráð fyrir því að sambandið verði aðili að hinu formlega samráði sem sett er á fót með þessu frumvarpi. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild bæði að starfsendurhæfingarnefndinni og nefndinni um stofnsetningu Vinnumarkaðsstofnunar. Við eigum mjög reglulegt og gott samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga um alla þætti í viðureigninni við atvinnuleysið. Við unnum nú síðast með þeim í því að finna lausnir á framboði á sumarstörfum fyrir námsmenn og það samstarf hefur gengið mjög vel. Við leggjum okkar af mörkum og sveitarfélögin leggja sitt af mörkum. Það er mjög mikilvægt að náið og traust samstarf sé á milli sveitarfélaganna og okkar nú þegar svo illa árar í atvinnumálum.