138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum sameiningu tveggja stórra stofnana ríkisins og ég ætti að gleðjast yfir því af því að þá fækkar stofnunum um eina. Hins vegar eru þessar stofnanir mjög ólíkar, bæði hvað varðar verkefni og að allri gerð, þannig að það er spurning hve mikil samlegðaráhrifin verða. Þau verða óneitanlega einhver og maður býst við því að ný hugsun komi inn í kerfið. Önnur stofnunin gætir að eftirliti með fyrirtækjum, þ.e. Vinnueftirlit ríkisins. Hún hefur verið gagnrýnd dálítið fyrir að kosta sérstaklega minni fyrirtæki í landinu töluverða fjármuni með því að krefjast óþarflega mikils eftirlits og að sá kostnaður sé mjög mikill fyrir smærri fyrirtæki. Hins vegar er það Vinnumálastofnun sem hefur miðlað störfum, fylgst með atvinnuleysi, greitt út atvinnuleysisbætur og annað slíkt sem er töluvert annar handleggur. Það má vel vera að eitthvað sparist við þetta og við verðum bara að bíða og vona að það gerist.

Það er rétt sem sagt hefur verið að velferðarkerfið hafi blásið mjög mikið út í 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Margir hafa gagnrýnt flokkinn fyrir það og vel má vera að flokkurinn þurfi að horfast í augu við að hafa á þessum tíma gefið út ávísun sem ekki var útfyllt og að það verði mjög erfitt að skera niður þennan mikla vöxt. Sumir hafa jafnvel kallað flokkinn velferðarflokkinn eina en ljóst er að útgjöld til velferðarmála jukust mjög mikið. Það var reyndar ekki vanþörf á því, frú forseti, vegna þess t.d. að laun grunnskólakennara voru skammarlega lág þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda. Sömuleiðis voru bætur elli- og örorkulífeyrisþega mjög lágar en þær voru hækkaðar nánast á hverju einasta ári um nokkra milljarða. Einnig var hætt að taka tillit til maka ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Það er að sjálfsögðu einstaklingshyggja sem ég er mjög ánægður með, þó að þetta valdi miklum kostnaði. Nú eru menn sem sagt að hverfa frá einstaklingshyggjunni og þá er spurning hvort þessar reglur verði teknar til baka.

Ég ætlaði aðallega að ræða um vinnumiðlunina og starfsendurhæfingu því að ég hef mikinn áhuga á því. Ég held að hin mikla fjölgun öryrkja, sem hefur verið ótrúlega mikil og hættulega mikil mundi ég segja, sé á vissan hátt kerfislæg. Örorkumatið okkar er eins konar punktamat. Menn eru annaðhvort 75% öryrkjar og fá þá allar bætur — reyndar með skerðingum — eða þeir eru 74% öryrkjar og fá lítið sem ekki neitt, fá örorkustyrk. Ef þeir eru undir 50% örorku fá þeir ekkert. Þetta gerir það náttúrlega að verkum, þar sem bæði læknar og aðrir vita þetta, að reynt er að toga fólk upp í 75% svo að það fái eitthvað. Þá er fólkið líka orðið öryrkjar og nafnið er mjög slæmt að því leyti að það er gildishlaðið. Ör-yrki, sá sem getur mjög lítið eða ekkert yrkt. Þetta held ég að leiði til þess að menn verða öryrkjar og hafa þá tilhneigingu til að reyna að vera öryrkjar áfram vegna þess að þeir tapa svo miklu ef þeir fara niður í 74% eða þaðan af lægra. Þetta er ákveðinn kerfisbundinn galli sem ég benti á fyrir sex, sjö árum síðan og hef unnið að því að reyna að breyta. Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og þar áður líka, var unnið mjög hart að þessu með því að ákveðin nefnd sem starfaði undir forsætisráðuneytinu átti að reyna að breyta þessu kerfi þannig að meira yrði horft til þess sem öryrkjar geta en ekki til þess sem þeir geta ekki.

Menn þurfa að hafa í huga að rannsóknir sýna, þó reyndar ekki margar, að þegar fólk hefur verið fjarverandi frá vinnumarkaði í sex mánuði eru 80% líkur á því að það fari aldrei að vinna aftur. Þetta á við um örorku og líka atvinnuleysi. Ef menn missa tengingu við vinnumarkaðinn og eru ekki í námi eða vinnu virðist sem þeir missi hlutverk í lífinu og það er mikið átak að hefja aftur tengsl við vinnumarkaðinn. Í raun þarf að hjálpa fólki mjög mikið við það skref. Það er alls ekki auðvelt að fara aftur að vinna eftir t.d. tólf mánaða atvinnuleysi eða tólf mánaða örorku. Það er mjög erfitt skref sem þarf að taka mið af. Mér finnst að kerfin hafi ekki unnið þannig í dag. Í fyrsta lagi held ég að vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun sé afskaplega veik og ekki sem skyldi. Þar er ekki reynt að koma fólki aftur í vinnu hvað sem það kostar heldur er starfið meira fólgið í því að skrá fólk og borga því út atvinnuleysisbætur. Sama á við um öryrkja, endurhæfingin er skammarlega léleg og mjög lítið gert í því. Þess vegna hafa verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins tekið þetta upp á sína arma því að menn átta sig náttúrlega á því hver borgar sívaxandi örorkubyrði og sívaxandi atvinnuleysi.

Ég hef margoft bent á að það er mjög mikilvægt að breyta reglum um örorkumat þannig að menn séu metnir t.d. 67% öryrkjar og með 33% vinnugetu og síðan fengju þeir 67% af fullum bótum en mættu vinna 33% og væru atvinnulausir að því leyti. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að gera gagnvart öryrkjum en gagnvart atvinnulausum, sérstaklega ungum atvinnulausum, er afar mikilvægt að virkja fólkið þannig að það detti ekki úr tengslum við vinnumarkaðinn. Ég hef nefnt, frú forseti, að úr því að við erum með um 3.000 atvinnulausa útlendinga hvort ekki mætti láta 3.000 unglinga, sem kunna jú íslensku sem útlendingarnir vilja læra, kenna þeim. Þó að það sé ekki fullkomin kennsla er það örugglega betra en ekkert. T.d. bara það að lesa dagblöðin með Pólverjum mundi gagnast báðum, annar fengi hlutverk og hinn nám. Þarna rekumst við kannski á forgang kennara til vinnu en ég held að það þurfi að líta fram hjá því í þeirri stöðu sem við erum í dag. Fjöldi atvinnulausra er líka með ágætismenntun. Sérstaklega fær eldra fólk ekki vinnu vegna fordóma gagnvart aldri en það hefur bæði reynslu og þekkingu á vissum sviðum. Einnig hefur verið kvartað yfir því að stóran hluta atvinnulauss fólks vanti menntun og þekkingu. Því ekki að láta þetta fólk sem er með menntunina kenna hinum sem ekki hafa menntun? Ég held að menn þurfi að vera miklu opnari fyrir því að virkja fólk með þessum hætti á meðan það er atvinnulaust, sérstaklega virkja öryrkja þannig að þeir lendi ekki í þeirri gildru að vera öryrkjar vegna þess að þeir urðu einhvern tíma öryrkjar.