138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi flutning starfsstöðva út á land held ég að ríkisstjórnin hafi gert margt og auðvitað má gera meira. Ég tel mig reka minni til þess, af því að ég sé hæstv. utanríkisráðherra í salnum, að þýðingarstarfsemi á vegum utanríkisráðuneytisins hafi verið flutt út á land, að einhverju leyti a.m.k. (Utanrrh.: Og meira í bígerð.) Og meira er í bígerð. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að nýta landið allt og vinnumarkaðinn á landinu öllu og hugsa það ekki sem sjálfgefið verkefni að öll uppbygging og öll ný störf þurfi að vera á einum stað.

Hitt er aftur annað mál, eins og kom fram í ábendingu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að það er heldur ekki um auðugan garð að gresja svo sem að flytja störf héðan á einmitt þessum tímapunkti. Þó er engin ástæða til þess að líta svo á að sameining stofnana, eins og í þessu tilviki þar sem fyrir hendi eru vel reknar og góðar starfsstöðvar úti á landi, kalli á breytingu á því fyrirkomulagi.