138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að ekkert fari á milli mála, þá eru starfseiningar á vegum Vinnumálastofnunar úti á landi, m.a. Fæðingarorlofssjóður, og engin breyting er fyrirhuguð á staðsetningu þessara eininga. Það sem er hins vegar mikilvægt að undirstrika er að hluti af hagræðingunni af sameiningunni í heild er að sameina þjónustumiðstöðvar Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar í eina í hverju umdæmi og ná hagræðingu þar. Því kann að fylgja einhver fækkun starfsmanna til lengri tíma litið en eins og ég segi þá ætlum við að bjóða öllum starfsmönnum starf hjá nýrri stofnun, ekki endilega sambærilegt því að við getum ekki haft tvo forstöðumenn á hverjum stað eða tvo forstöðumenn tölvudeildar o.s.frv. En störf verða í boði og á mörgum stöðum er þetta ekki sérstaklega flókið, á Akureyri eru t.d. Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit hvort á sinni hæðinni í sama húsi. Það er með þeim hætti sem við ætlum okkur að ná hagræðingu í þjónustunni úti á landi en eins og ég segi er ekki fyrirhugað að flytja einstakar starfseiningar þaðan sem þær eru núna.