138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að nú er veigamesta verkefni Vinnumálastofnunar, annarrar þeirrar stofnunar sem hér um ræðir, viðbrögð við því mikla atvinnuleysi sem við búum við. Ég vil geta þess að ég tek undir það sem fram hefur komið að Vinnumálastofnun og aðrir þeir sem hafa haft það hlutverk að bregðast við atvinnuleysisvandanum hafa að mörgu leyti staðið sig vel og ég held að full ástæða sé til að fagna ýmsum þeim úrræðum sem boðið hefur verið upp á, m.a. að frumkvæði hæstv. félagsmálaráðherra.

Ég vil ljúka þessari umræðu, alla vega af minni hálfu, með því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að meginvandinn sem við okkur blasir sé kannski ekki endilega sá hvernig við eigum að bregðast við atvinnuleysinu heldur miklu frekar hvernig við eigum að minnka atvinnuleysið, hvernig við eigum að fjölga störfum í landinu og hvernig við eigum að tryggja að við náum okkur upp úr þessu atvinnuleysi, en ekki hvernig við eigum að lifa með því.