138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa góðu athugasemd. Það er alveg rétt hjá honum að það er auðvitað verkefni okkar að komast út úr þessu atvinnuleysi og venja okkur ekki við það. Því miður eru blikur á lofti. Það er tvísýnt um ferðaþjónustuna í sumar, en við horfðum mjög til að hún mundi hjálpa okkur að létta á stöðunni.

Það er líka alveg ljóst að við verðum að klára ágreiningsmál við önnur ríki, Icesave-málið, til að fá betri aðgang að fjármögnun þannig að ekki sé óvissa um það hvort ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar og að okkur gangi betur að fá erlenda fjárfestingu inn í landið. Hitt er svo aftur annað mál, sem ég held að við verðum líka að horfa til, að í nágrannaríkjum okkar eru vaxandi áhyggjur af því að afleiðing þessarar kreppu verði umtalsvert atvinnuleysi til lengri tíma, meðallangs tíma, alla vega til næstu 10 ára. Ástæðan er sú að við erum að koma út úr fjármálakreppu og aðgangur að lánsfé verður að öllum líkindum nokkuð erfiður á næstu árum vegna þess að bankakerfið varð fyrir verulegu höggi. Ýmsar forsendur sem bankakerfið lagði til grundvallar lánveitingum eru brostnar eða hafa alla vega bognað og þar af leiðandi er ekki gefið að fyrirtæki muni eiga jafngreiðan aðgang að lánsfé til að byggja upp ný störf og þau hafa átt hingað til. Þetta er mikið rætt á alþjóðlegum fundum vinnumálaráðherra og hættan er sú að við kynnum að sjá umtalsvert atvinnuleysi í umtalsverðan tíma. Það ætti alveg eins við hér og annars staðar. Hér hafa orðið nákvæmlega sömu högg í bankakerfinu og við erum með endurskoðendur sem vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að ýmsar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við verðmat á fyrirtækjum og veðhæfni eigna eru allar brostnar þannig að menn munu fara mjög hægt af stað í atvinnulífinu og í bankakerfinu og vera mjög varkárir og þetta gæti leitt til þess að það drægist að fjölga störfum.