138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um húsaleigubætur. Atvinnuleysistryggingakerfinu var breytt hér á landi sumarið 2006 með lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Fram til haustsins 2008 reyndi lítið á þetta nýja kerfi enda var skráð atvinnuleysi mjög lítið á því tímabili. Frá því í nóvember 2008 hefur hins vegar reynt afar mikið á kerfið þar sem atvinnuleysi hefur farið ört vaxandi hér á landi. Þannig fór skráð atvinnuleysi úr 1,3% í september 2008 í 6,6% í janúar 2009 og hefur skráð atvinnuleysi hér á landi aukist frá þeim tíma. Í febrúar var skráð atvinnuleysi 9,3% og marstalan er nokkurn vegin sú sama. Með lögum nr. 131/2008, um breytingu á lögunum frá 2006, um atvinnuleysistryggingar, var tveimur ákvæðum til bráðabirgða bætt við lögin um atvinnuleysistryggingar, bráðabirgðaákvæðum V og VI. Bráðabirgðaákvæði V kveður á um að heimilt sé að uppfylltum tilteknum skilyrðum að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna og ekki komi til skerðingar atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar að því er varðar greiðslur frá vinnuveitanda vegna minnkaðs starfshlutfalls á gildistíma ákvæðisins.

Með bráðabirgðaákvæði VI var sjálfstætt starfandi einstaklingum gert heimilt að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Samkvæmt frumvarpi því sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 131/2008 var breytingum þessum ætlað að koma til móts við breyttar aðstæður á vinnumarkaði og var gildistími ákvæðanna því takmarkaður. Lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt í tvígang árið 2009 þar sem gildistími fyrrnefndra ákvæða var framlengdur í bæði skiptin og er gildistími þeirra nú til 30. júní 2010. Í ljósi þess að skráð atvinnuleysi fer enn vaxandi og óvissa ríkir enn á innlendum vinnumarkaði í kjölfar breyttra aðstæðna frá því haustið 2008 er í frumvarpi þessu lagt til að gildistími framangreindra ákvæða til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur óbreyttur til 31. desember 2010. Við gerum þá ráð fyrir að á haustmánuðum verði tekið mið af reynslunni hingað til og að til frekari endurskoðunar á þessum ákvæðum komi á haustþingi.

Virðulegi forseti. Þá er í frumvarpi þessu lagt til að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skerði ekki atvinnuleysisbætur samkvæmt 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Er sú tilhögun í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið í tengslum við skerðingu lífeyrisgreiðslna á grundvelli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, en greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skerða ekki þær greiðslur. Í því skyni að gæta jafnræðis er lagt til að ákvæði þetta verði afturvirkt til 1. mars 2009 eða til þess tíma er bráðabirgðaákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hvað varðar heimild til úttektar elli- og örorkulífeyrisgreiðslna úr séreignarlífeyrissjóðum fyrir 60 ára aldur tóku fyrst gildi. Í samræmi við framangreint er í frumvarpi þessu lagt til að í lögum um atvinnuleysistryggingar verði kveðið á um að Atvinnuleysistryggingasjóði beri að endurgreiða atvinnuleitendum, sem hafa fengið skertar atvinnuleysisbætur eftir 1. mars 2009 vegna elli- og örorkulífeyrisgreiðslna og séreigna í lífeyrissjóðum á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þá fjárhæð sem nemur skerðingunni. Þó er það gert að skilyrði að viðkomandi atvinnuleitendur hafi óskað eftir fyrrnefndri endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir 1. september 2010. Í því skyni að gæta jafnræðis á milli þeirra sem eru yngri en 60 ára og þeirra sem eru 60 ára og eldri að því er varðar húsaleigubætur er í frumvarpi þessu jafnframt lögð til samsvarandi breyting á lögum nr. 138/1997, um húsaleigubætur, með síðari breytingum, hvað varðar áhrif elli- og örorkulífeyrisgreiðslna úr séreignarlífeyrissjóðum á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á húsaleigubætur. Þannig er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda teljist ekki til tekna samkvæmt lögum um húsaleigubætur og skerði því ekki slíkar bætur.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt í því efnahagsástandi sem við búum við núna að auðvelda fólki að takast á við áföll með eigin sparnaði og það samrýmist ekki því markmiði að útgreiddar atvinnuleysisbætur skerðist vegna þess að fólk nýti séreignarsparnað sinn til að brúa það bil sem atvinnumissir hefur óneitanlega í flestum tilvikum í för með sér fyrir tekjuöflun fjölskyldu.

Virðulegi forseti. Að síðustu er í frumvarpinu lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um atvinnuleysistryggingar að við framkvæmd laganna skuli tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. Á þetta einkum við um túlkun ákvæða VIII. kafla laganna. Er þetta lagt til í því skyni að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA sem gert hefur athugasemdir við að ekki sé ljóst að túlkunarreglur í lögum um atvinnuleysistryggingar taki mið af ákvæðum milliríkjasamninga um almannatryggingar og félagsmál.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan fer skráð atvinnuleysi enn vaxandi hér á landi og óvissa ríkir á innlendum vinnumarkaði í kjölfar breyttra aðstæðna. Ég legg því áherslu á mikilvægi þess að Alþingi samþykki framlengingu gildistíma þessara tveggja ákvæða til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar er full ástæða til þess að líta á reynsluna af þessum bráðabirgðaákvæðum í haust þegar við getum litið yfir aðeins lengra tímabil og horft til þess hvaða framtíðargildi við ætlum þessum reglum, m.a. í ljósi þess að eðlilegt er að einhver takmörk séu á því hversu lengi fólk eigi að geta notið hlutabóta, því ef engin takmörk eru á því þá er auðvitað um að ræða rekstrarstyrk til viðkomandi fyrirtækja til lengri tíma litið sem varla samrýmist eðlilegum sjónarmiðum um markmið aðstoðar við atvinnulausa og aðgerða til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En ég held að það sé best að við förum yfir það mál í haust þegar við getum horft á lengri reynslutíma og sjáum vonandi fram á kyrrari tíma á vinnumarkaði samhliða því að hafa náð meiri stöðugleika í efnahagsmálum og sjáum vonandi fram á að atvinnuleysi verði viðráðanlegra á næstu missirum.

Að síðustu legg ég til að málinu verði vísað til félags- og tryggingamálanefndar.