138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir þetta frumvarp sem ég tel mjög mikilvægt. Ég vil fyrst nefna að mögulega skerði útgreiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum ekki lengur atvinnuleysisbætur og húsaleigubætur. Slíkt tel ég sjálfsagt réttlætismál enda er það svo að við mjög erfiðar efnahagsaðstæður og mikið atvinnuleysi hefur fólki verið gert kleift að ganga á sparnaðinn, sem í raun og veru er ætlað að standa straum af útgjöldum á efri árum, og nýta þessa fjármuni nú. Það er algerlega óviðunandi að slíkar greiðslur skerði almenn réttindi í velferðarkerfinu þar sem m.a. atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur skipta miklu máli. Fram kemur að þetta er afturvirkt til þess tíma sem opnað var á þessar útgreiðslur til fólks undir 60 ára aldri, en svo segir jafnframt í 6. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Skilyrði er að viðkomandi atvinnuleitendur hafi óskað eftir endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir 1. september 2010.“

Þó að það komi ekki almennilega fram í greinargerð með frumvarpinu geri ég ráð fyrir að tryggja þurfi að endurgreiðslur komi til allra hvort sem þeir eru atvinnuleitendur nú eða voru það þegar greiðslurnar skertust. Mun félags- og tryggingamálanefnd ganga úr skugga um að þessi réttur fólks verði dyggilega kynntur fyrir því hvort sem það er enn í atvinnuleit eður ei.

Þá vil ég ræða 4. og 5. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um framlengingu á ákvæðum V og VI til bráðabirgða varðandi hlutaatvinnuleysisbætur og atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Nefndin ræddi þetta þó nokkuð rétt fyrir jólin þegar við framlengdum þessi ákvæði og má hugsa sér hvort ekki hefði verið rétt af hálfu bæði ráðuneytisins og hv. félags- og tryggingamálanefndar að vera ekki með þessar smáskammtalækningar heldur lengja þau út allt árið. En mikið var rætt í nefndinni á þeim tíma um þættina sem eru líka teknir upp í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, þ.e. hvaða áhrif þeir kunni að hafa á niðurgreiðslu starfa ýmissa fyrirtækja þar sem er hætta á misnotkun. Eftir miklar vangaveltur varð niðurstaðan sú að þetta væri mjög mikilvæg vinnumarkaðsaðgerð en við munum halda áfram þessum samræðum við ráðuneytið um meðferð þessara tillagna og óska eftir tölulegum gögnum um hvernig þróun þessara bótaflokka er.

Jafnframt var rætt um hvort tímabilið sem viðkomandi nytu atvinnuleysisbóta hefði áhrif. Tíminn sem fólk getur verið á atvinnuleysisbótum er takmarkaður og þó að það fengi tiltölulega lágt hlutfall bóta þá væru þær skertar mánuð fyrir mánuð. Þó að við ætlum að koma okkur hratt og örugglega út úr þessari alvarlegu efnahagslægð þá held ég að við verðum líka að tryggja að setja ekki stóran hóp fólks í þá hættu að standa utan atvinnuleysistryggingakerfisins ef t.d. fyrirtæki þeirra lendir síðan í mun alvarlegri vandræðum eða einhverjar atvinnugreinar eiga um sárt að binda. Þessa þætti þarf að skoða gaumgæfilega þó að ég telji að góður samhljómur verði um þessar brýnu vinnumarkaðsaðgerðir í nefndinni líkt og síðast.

Að lokum vil ég taka undir vangaveltur hv. þm. Birgis Ármannssonar. Má segja að kostnaðarumsögnin með frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu sé fyrir innvígða og innmúraða. Við höfum rætt það í nefndinni. Ég taldi mig skilja það sem hér stendur eftir að hafa lesið þetta en ég þyrði ekki með nokkru móti að fullyrða, frú forseti, að minn skilningur væri réttur. Ég hef jafnframt áhyggjur af því að ráðuneytið hafi ekki lagt fram tillögur um hvernig skuli mæta þessari útgjaldaaukningu en fram undan er mikill niðurskurður á næstu fjárlögum. Kannski gefur þetta nefndinni tilefni til að fara yfir hvernig útgjöld atvinnuleysistrygginga þróast. Auðvitað liggja þar upplýsingar fyrir en nefndin ætti kannski að veita því sérstaka athygli og búa sig undir umræður í nefndinni um fjárlög fyrir árið 2011. En í meginatriðum er ég hæstánægð með þetta frumvarp og tel að breytingar á því séu til bóta fyrir þá sem efni þess varðar.