138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tvær breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur og húsaleigubætur, reyndar aðallega séreignarsjóði og hlutaatvinnuleysisbætur. Hvort tveggja er í bráðabirgðaákvæði og ég mundi leggja til að nefndin íhugaði að gera hvort um sig varanlegt.

Ef við snúum okkur fyrst að séreigninni þá er séreignin frjáls sparnaður. Hver og einn getur ákveðið að fara í þennan sparnað eða láta það vera. Þar sem þetta myndar lífeyrissjóð í einhverjum skilningi þá hafa margir litið svo á að þetta séu lífeyrissjóðsgreiðslur sem þær alls ekki eru vegna þess að ekki er verið að taka neina áhættu af fólki. Það fær alla séreignina greidda út hvort sem það lifir, deyr eða verður öryrkjar og ekkert skilur þennan sparnað frá venjulegum sparnaði annað en frestun á sköttum og skattfrelsi á fjármagnstekjum. Það er það eina sem skilur séreignina frá venjulegum sparnaði þannig að ég held að menn ættu að taka þetta skref að fullu og átta sig á því að séreignarsparnaður er ekki lífeyrissparnaður af því að hann tekur enga áhættu af viðkomandi einstaklingi.

Inn í þetta blandast líka það að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að leyfa fólki að taka út séreignarsparnaðinn sem er visst skemmdarverk á þeim sparnaði. Ég hef mikið verið á móti því og tel að íslensk heimili eigi ekki of mikið af sparifé og skuldi fullmikið eins og hefur komið í ljós þannig að ekki ætti að hvetja menn til að ganga á þann litla sparnað sem þeir eiga heldur ætti frekar að örva menn til að leggja fyrir.

En varðandi seinna fyrirbærið, hlutabætur, þá telst mér svo til að þetta sé einsdæmi í heiminum. Var ég afskaplega hrifinn af þessu og vil ég spyrja hæstv. ráðherra ef hann kemur í andsvar hvort honum sé kunnugt um að þetta sé einhvers staðar annars staðar. Þarna er tekið mið af því að menn sem eru atvinnulausir að hluta — segjum 30% eða eitthvað svoleiðis — geti fengið atvinnuleysisbætur fyrir þeim hluta. Mér finnst þetta mjög sanngjarnt og þó að það bjóði upp á svik og pretti eins og velflest bótakerfi gera þá held ég að menn eigi ekki að gefast upp á að berjast gegn þeim svikum. Þetta er afskaplega merkilegt og gerir það að verkum að í staðinn fyrir að fyrirtæki þurfi að segja upp 20% af mannskapnum af því að það á hreinlega ekki fyrir launum — á bara fyrir 80% af laununum og þá er spurningin hvort 20% af starfsmönnunum verður sagt upp — ef þetta eru 10 starfsmenn þá er tveimur sagt upp að fullu — eða verður öllum sagt upp 20% af stöðugildinu þannig að hver og einn vinnur 80% vinnu — segjum fjóra daga af hverjum fimm — og þá er ávinningurinn sá að höggið fyrir hvern einstakling verður miklu minna, tengslin við vinnumarkaðinn haldast og fyrirtæki heldur reynslu og þekkingu sinna starfsmanna þegar staðan lagast. Þetta er afskaplega mikilvægt að öllu leyti. Ég legg til að þetta verði jafnvel gert varanlegt. Hvort tveggja er í rauninni hluti af einstaklingshyggju sem hefur farið vaxandi að undanförnu og sumir hafa sagt að þurfi að hverfa frá. En þarna er litið á einstaklinginn og stöðu hans og reynt að tengja við vinnumarkaðinn eins og hægt er þannig að hann verði ekki fyrir því sem ég gat um áðan varðandi örorkuna. Og einnig á það við um það sem við ræddum í tengslum við síðasta frumvarp þar sem kannanir sýna að 80% líkur séu á því að menn sem eru meira en sex mánuði frá vinnumarkaði vinni aldrei framar.