138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta er náttúrlega ljóst að ef fólk er t.d. 30% atvinnulaust er það á 30% atvinnuleysisbótum sem yfirleitt eru töluvert lægri en þau laun sem það hafði í 30% starfi þannig að menn sæta ákveðinni skerðingu. Svo er það auk þess á vinnumarkaði. Það er vinnuleitandi að þessu 30% leyti og Vinnumálastofnun getur miðlað þessum 30% vinnugetunnar til annarra fyrirtækja. Menn þurfa að vera opnir fyrir því.

Svo er takmörkun á atvinnuleysisbótum yfirleitt þar sem menn geta ekki verið á atvinnuleysisbótum nema í fimm ár, ef ég man rétt, og þá falla þær niður. Þetta er líka uppsafnað. Maður sem er með helmingsatvinnu og helmingsatvinnuleysisbætur er eftir 10 ár búinn með þær bætur og getur ekki lengur fengið atvinnuleysisbætur. Menn leysa þetta þannig.

Varðandi sjálfstætt starfandi verður það alltaf vandamál. Ég held að þegar þessi mikla kreppa verður gengin hjá þurfi menn eiginlega að útiloka þá frá þessu dæmi. Þegar sjálfstætt starfandi maður gerist sjálfstætt starfandi vonast hann til að fá hærri tekjur og vonast líka til þess að hafa meiri stjórn á vinnu sinni, ráða sér sjálfur, og þá verður hann líka að sætta sig við þau áföll sem geta falist í því að verða 20% atvinnulaus eða eitthvað slíkt.