138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að um margt séum við hv. þingmaður sammála en ég tel þó að varðandi ákvæði til bráðabirgða V, um hlutaatvinnuleysisbætur til þeirra sem eru í ráðningarsambandi hjá atvinnurekanda, verðum við að stíga varlega til jarðar. Hann hefur bent á að sannarlega sé alltaf hætta á að kerfi séu misnotuð. Ég tek undir það en tel þó að við eigum að miða kerfin við að þau séu almenns eðlis. Það eru hægt að misnota öll kerfi og við eigum ekki að sníða þau að þeim heldur að hagsmunum meginþorra almennings sem nýtir sér velferðarkerfið af því að það er brýn þörf til þess. Fimm ár eru töluvert langur tími og ég tel að freistingin fyrir ýmis fyrirtæki til að misnota sér þetta ákvæði sé þó nokkur. Þó að ég sé mjög jákvæð fyrir því að ræða þetta í nefndinni tel ég ýmis vandkvæði á því að binda þetta í lög til langframa án þess að um tímatakmörk á þessari tegund bóta sé að ræða. Svo getur vel verið að eftir nánari umræður og athugasemdir frá einstaka þingmönnum og gestum í nefndinni eigi ég eftir að skipta um skoðun í því máli.