138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:06]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa málefnalegu og góðu umræðu og auðvitað margar spurningar sem bíða hv. félags- og tryggingamálanefndar.

Ég vil bara nefna tvennt sem kom upp í umræðunni. Annars vegar vil ég reyna að skýra aðeins betur útgjaldaaukninguna sem fylgir þessari breytingu. Eins og ég reyndi að útskýra í andsvari áðan en hafði kannski ekki nægan tíma til er það þannig núna að í fjárlögum er gert ráð fyrir ákveðnu útstreymi úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í forsendum fjárlaga fyrir þetta ár var gert ráð fyrir að þetta úrræði stæði bara til vors en ekki út almanaksárið. Þannig er fundin þessi viðbótartala um útgjöld upp á 200 milljónir. Við erum samt vel innan forsendna fjárlaga þannig að það eru engar líkur á því að það komi til 200 milljóna viðbótarútgjalda úr ríkissjóði vegna atvinnuleysistryggingakerfisins út af þessu. Ástæðan fyrir því er í fyrsta lagi sú að atvinnuleysið var minna fyrstu tvo mánuðina og spár eru enn þá um að það verði innan fjárlagaforsendna. Við höfum einnig náð umtalsverðum árangri í eftirliti þar sem við höfum gengið betur eftir því að skráningar séu réttar og það hefur skilað umtalsverðum sparnaði. Það sem hefur auðvitað líka gerst er að við höfum tekið á ákveðnum hópum, t.d. varðandi unga atvinnuleitendur. Það hefur gengið afskaplega vel og þeir hafa tekið vel þátt í úrræðum. Við bjóðum fólki úrræði í sífellt meira mæli vegna þess að við höfum fleira starfsfólk til þess. Núna þegar nýskráningahrinunni hefur slotað höfum við betra og betra tækifæri til að bjóða fólki úrræði, námskeið sem krefjast viðveru þess og þá náttúrlega kemst upp um þá sem misnota kerfið vegna þess að þeir geta ekki mætt á hverjum degi og verða þá að skrá sig af bótum. Besta leiðin til að vinna gegn svikum er einfaldlega að vinna í kerfinu og bjóða fólki úrræði frekar en að búa til einhverjar stormsveitir eða sérsveitir til að hafa eftirlit með því að fólk svindli ekki. Það er miklu betra að bjóða fólki úrræði og þá kemur í ljós hverjir geta nýtt sér þau og hverjir ekki þannig að við erum þess fullviss að við verðum innan fjárlagaforsendna, það komi ekki til viðbótarútgjalda upp á 200 milljónir á þessu ári þrátt fyrir að við framlengjum þessi úrræði til ársloka.

Varðandi hlutabæturnar að öðru leyti er alveg umhugsunarefni hvort menn eigi að festa þær í sessi núna. Við hikuðum við það þegar við lögðum fram frumvarpið fyrir áramót vegna þess að okkur þótti svo mörgum spurningum ósvarað um framtíðarþróun atvinnuleysisins. Það er sama hik á okkur núna. Við teljum eiginlega að við þurfum að hafa heilt annað ár undir í haust, horfa þá á stöðuna og leita víðtæks samráðs líka við aðila vinnumarkaðarins um framhaldið á þessu. Þetta er ekkert séríslenskt úrræði. Þetta er þekkt í öllum nágrannalöndum okkar. Í Danmörku hafa menn t.d. farið þá leið að binda lengd hlutabóta við sex mánuði. Hugsunin er sú að vinnuaflið sé í arðbærum verkefnum. Ég tel að kerfið eins og það var í byrjun hafi verið alveg fráleitt, þegar menn gátu verið í 10% skertu hlutfalli. Þá vorum við í reynd að létta af fyrirtækjum og opinberum stofnunum þörfinni á lágmarkshagræðingaraðgerðum því að þá var hægt að senda reikninginn fyrir hagræðingaraðgerðum beint á Atvinnuleysistryggingasjóð með því að lækka launin um 10%. Auðvitað er miklu eðlilegra að atvinnulífið og ríkið horfist í augu við að það verði að lækka launakostnaðinn um 10% frekar en að byrja á því að búa til starfshlutföll úr því. Þess vegna lækkuðum við hámarksviðmiðunina með lagabreytingunni fyrir áramót. Nú er miðað við að þetta verði að vera að lágmarki 20% skerðing, þ.e. einn dagur í viku, enda er það mælanlegt viðmið.

Svo er spurning hvort við eigum að fara þá leið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal veltir upp, að búa til vinnumiðlun með þennan eina dag. Frændur okkar Danir segja einfaldlega að ef við erum með fyrirtæki sem til langframa eru svo veikburða að þau geta ekki boðið annað en 80% eða 50% starf er spurning hvort þau fyrirtæki eigi ekki að fara í þrot og fólk að vinna einhvers staðar annars staðar. Þess vegna hafa þeir þessa viðmiðun um hámark sex mánuði. Annars segja þeir að ríkið styrki launakostnað þessara fyrirtækja og haldi vinnuaflinu uppteknu í óarðbærum verkefnum í staðinn fyrir að fólk flytji sig í önnur betur launuð störf í arðbærari fyrirtækjum. Á þeim grunni settu þeir þessa sex mánaða reglu. Mér finnst ekki tímabært að setja sex mánaða reglu í dag miðað við þá óvissu sem er, líka vegna þess að við horfum til þess að núna er að harðna á dalnum, sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum þar sem vel kann að vera að stofnanir leiti í auknum mæli þessarar leiðar. Það sem við gerðum fyrir áramót var hins vegar að styrkja rétt fólks sem lendir í þessari stöðu þannig að það þurfi alltaf að undirrita samning við viðkomandi, þetta sé ekki einhliða réttur vinnuveitanda. Það þarf að undirrita samning um það og þá hvert markmiðið er. Hvenær er stefnt að því að viðkomandi komist aftur í fullt starf? Við viljum auðvitað halda fullri atvinnu í landinu. Við viljum að fyrirtækin séu í stakk búin til að borga almennileg laun en við ætlum ekki til langframa að niðurgreiða launakostnað þeirra. Það eru þessi sjónarmið sem vegast á.

Ég heyri á umræðu þingmanna að þetta mál verður vel rætt í nefndinni og það verður spennandi að fylgjast með framgangi þess þar.