138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ef þetta er hluti af því að auka endurhæfingu á Íslandi get ég svo sem alveg fallist á það en það kemur ekki fram. Ef þetta er hluti af því að búa til einhverjar fræðslumiðstöðvar út um allt á vegum stéttarfélaga, og ég veit ekki til þess að það sé eftirlit með því, þá hef ég efasemdir um þetta. Og það sem ég hef sérstakar efasemdir um er að þarna sé verið að opna á galopna skattlagningu á öll fyrirtæki í landinu. Það er ekkert ákvæði um hvað þetta megi vera mörg prósent af launum eða til hvers þetta fer. Þetta á bara að fara í fræðslusjóði atvinnulífsins og hvað er nú það? Er eitthvert eftirlit með því batteríi? Hvað ætla þeir að gera við peningana?

Ég held að sé mjög brýnt að hv. þingmenn séu vakandi yfir svona hlutum. Ég hef margoft lagt fram frumvörp um að takmarka þetta. Ég nefni t.d. iðnaðarmálagjaldið sem einhvern tímann var sett á til þess að borga með skatttekjum Samtök iðnaðarins, SI. Þau fá sínar tekjur í gegnum skattinn. Þau þurfa ekkert að hafa fyrir því. Þetta eru einu samtökin á Íslandi, félagasamtökin, sem að mínu mati eru orðin mjög stofnanavædd. Þetta eru opinberir starfsmenn nánast. Það er reyndar þannig að það hefur verið kært til Mannréttindadómstóls Evrópu og hann hefur ákveðið að taka málið fyrir. Ég hélt jafnvel að hann væri búinn að dæma í því, að þetta brjóti ákvæði um félagafrelsi. Til dæmis í því dæmi, með Samtök iðnaðarins, segjum að Samtök iðnaðarins hafi einhverja ákveðna stefnu eins og t.d. það að ganga í Evrópusambandið og segjum að einhver aðili sem er félagi í samtökunum eða er gert að greiða iðnaðarmálagjald vilji ekki ganga í Evrópusambandið, þá er hann neyddur til að borga áróður gegn sinni eigin sannfæringu með þessu. Það er akkúrat þetta sem gerist. Þetta sama gerist líka hjá BSRB. Þetta sama gerist líka hjá ASÍ. ASÍ ákveður fyrir öll sín þvinguðu félagsgjöld að berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Það er búið að breyta þessum samtökum í stjórnmálaflokka allt að því með stjórnmálastefnu og ég lít svo á að þetta sé alveg stórhættulegt. Það er stórhættulegt þegar verið er að nota skyldugreiðslur í félagasamtök til að ná fram pólitískum markmiðum.

Segjum svo að þessi samtök iðnaðarmanna eða þeir iðnaðarmenn sem eru á móti því að borga þetta iðgjald stofni félagasamtök sjálfir, t.d. til þess að berjast fyrir hagsmunum sínum, t.d. til þess að ganga ekki í Evrópusambandið, þá eru þeir að fjármagna bæði andstöðu gegn Evrópusambandinu og eins með því að þeir eru skyldaðir til að borga með. Ég hef miklar efasemdir um þetta. Þetta er ekkert lýðræði.

Svo kemur annar hlutur. Mönnum er gert t.d. að borga í Fiskræktarsjóð. Öllum virkjendum að vatnsorku á Íslandi er gert að borga í Fiskræktarsjóð. Hvað skyldu nú vera margir fiskar uppi í Kárahnjúkavirkjun? Það er enginn þar. Það er ekki ein einasta branda þar, en þeim er samt gert að borga stórfé inn í Fiskræktarsjóð sem einhverjir einstaklingar reka og fá peningana til að byggja veiðihús og annað slíkt og dreifa laxaseiðum í ár í eiginhagsmunaskyni. (Utanrrh.: Ekki byggja veiðihús.) Ja, það þyrfti nú að kanna það.

Síðan er líka annað ákvæði sem ég hef margoft flutt frumvarp um, þetta gildir um búvörugjaldið líka þar sem bændum, fátækum bændum er gert að borga til reksturs á búnaðarsamtökum, Búnaðarsamtökum Íslands, hvort sem þeir vilja vera félagar eða ekki.

Þetta á líka við um opinbera starfsmenn. Opinberum starfsmönnum er samkvæmt 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna gert að borga félagsgjald til stéttarfélags sem þeir ættu að vera í, hvort sem þeir vilja vera í því eða ekki. Hvað þýðir það? Það þýðir að þeir borga en fá ekki réttindi. Þeir fá ekki sumarbústað af því að þeir eru ekki félagar. Þeir fá ekki öll réttindin sem þeir borga fyrir en þeir eru látnir borga samt. Þetta byggir náttúrlega á því að BSRB er orðið mjög öflugt. Þetta hefur það í för með sér að þau félagasamtök öll sem fá greiðslu samkvæmt lögum til sín í sjúkrasjóði, í orlofsheimilasjóði og ég veit ekki hvað, fara með alla þessa peninga. Þetta er orðinn eins konar skattur sem rennur til samtaka sem eru styrkt af einhverjum einstaklingum. Þar er lýðræðið mjög lítið, það er mjög lítið lýðræði í verkalýðshreyfingunni. Það sem þetta hefur haft í för með sér í gegnum tíðina er að hún er orðin stofnanagerð. Þetta eru orðnar stofnanir sem fara með þá peninga sem löggjafarvaldið hefur skyldað fyrirtæki og einstaklinga til að greiða sem eins konar skatt til félaga. Samt þykjumst við vera með félagafrelsi hér á landi. Ég hef því mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp. Hér er verið að víkka þetta út og ég vil fá miklu betri skýringu á því hvað eigi að gera við þetta, alla vega setja á þetta eitthvert hámark þannig að menn geti ekki sett á þetta hvaða tölu sem er.

Ég hef minnt á það að varðandi skyldu opinberra starfsmanna til að greiða í stéttarfélag, er ekki neitt talað um hvað upphæðin eða prósentan má vera há. Lítill félagsfundur í einhverju félagi opinberra starfsmanna gæti ákveðið að félagsgjaldið ætti að vera 100% af launum og daginn eftir yrði launaskrifstofa ríkisins að innheimta það. Það er lagaskylda. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að skoða þetta mjög vendilega.