138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það má segja að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Mér fannst hv. þingmaður kominn ansi langt í röksemdafærslu sinni gegn þessu ákvæði um gjald í fræðslusjóð og ég sé að það verða mjög líflegar umræður um þetta litla frumvarp í nefndinni og er það vel. Ég get samt sem áður ekki orða bundist, frú forseti, því mér fundust yfirlýsingarnar sem þingmaðurinn gaf varðandi ýmis félög og hagsmunabaráttu þeirra allalvarlegar. Ég vil minna hv. þingmann á það að félög eru oft og tíðum hagsmunasamtök en geta líka verið hrein skemmtifélög, það er með ýmsu móti. En að það, að ákveðin félög aðhyllist ákveðnar skoðanir af því að þau telji það þjóna hagsmunum félagsmanna sinna, þýði að þau megi ekki fá atbeina af hálfu ríkisins finnst mér óhugnanlegt. Ég vara við slíkri umræðu. Síðan er það aftur á móti annað mál að út frá ákveðnum prinsippum er sjálfsagt að endurskoða hvaða gjöld eru lögð á hverja og í hvað þau eru notuð, sérstaklega nú á tímum þegar við stöndum frammi fyrir miklum niðurskurði í ríkisfjármálum. Full ástæða er til að endurskoða með hvaða hætti við innheimtum fjármuni og með hvaða hætti við deilum þeim síðan aftur út. En ég vara við því að félög eigi ekki að fá fjármuni af því þau aðhyllast rangar skoðanir. Þótt ég telji reyndar framlag ríkisins til Bændasamtakanna vera rausnarlegt, þá eru forsendurnar fyrir því að ég tel að það mætti lækka það ekki þær að samtökin hafi yfirlýsta stefnu gegn Evrópusambandinu. Það verður að byggja á haldbetri rökum þegar verið er að draga úr fjárveitingum til lýðræðislegra (Forseti hringir.) félaga með lýðræðislega kjörnar stjórnir.