138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson er þekktur fyrir að vera skemmtilegur maður og segja oft brandara í ræðustóli. Þegar ég les í gegnum þetta frumvarp verð ég að viðurkenna að ég hélt að þetta væri enn einn brandarinn hjá hæstv. ráðherra. Hér mætir hann með einhvers konar stofnanavafning, sem er líkur þeim fjármálagjörningum sem við höfum lesið töluvert um á undanförnum mánuðum, þar sem enginn skilur hvað í ósköpunum er í gangi. Hér eru alls konar tilfærslur. Verið er að veita ráðherranum heimild til að gera starfsmenn ríkisins að verktökum sem verða falin einhver verkefni þrátt fyrir að þeir eigi að starfa hjá ríkisstofnun. Þetta frumvarp virðist vera sorglegur endir á stofnun sem átti sér mjög sorglegt upphaf undir stjórn þáverandi utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem hafði betur í leðjuslag við þáverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason um það hvernig ætti að standa að stofnun Varnarmálastofnunar. Þáverandi utanríkisráðherra lá svo mikið á að hún gat ekki beðið eftir tillögum starfshóps um það hvernig ætti nákvæmlega að standa að þessum verkefnum og núverandi hæstv. utanríkisráðherra liggur svo mikið á að hann getur ekki einu sinni beðið eftir stofnun ráðuneytisins sem stofnunin og verkefni hennar eiga að fara undir.

Ég vil minna á að hér undir eru störf 60 manna á Suðurnesjunum þar sem atvinnuástandið er mjög slæmt og þetta bætir svo sannarlega ekki úr skák. Þetta fólk býr við mikið óöryggi og ein af stóru ábendingunum í rannsóknarnefndarskýrslunni er að byrja á að bæta vinnubrögðin hjá okkur, byrja á pólitísku stefnumörkuninni áður en við förum í einhverjar tæknilegar úrlausnir. Það er nákvæmlega það sem samráðshópurinn (Forseti hringir.) benti á í skýrslu sinni, (Forseti hringir.) að óskað væri eftir pólitískri stefnumörkun, en það eina sem við fáum er þetta frumvarp. (Forseti hringir.) Eru þetta ásættanleg vinnubrögð?