138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega málið að það er ekkert kýrskýrt við þetta frumvarp. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins stendur, með leyfi forseta:

„Ef þau verkefni sem starfsfólkið vinnur að flytjast til annarra stofnana skal þeim boðið starf hjá þeim. Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði. “

Ég get ekki misskilið þetta. Í 19. gr. er meira að segja ítrekað að ákvæðið gildi ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði og ég held að eitt af því sem nefndin þurfi að skoða sérstaklega sé hvort þetta samræmist almennt lögum og skilgreiningunni á því hvað eru verktakastörf og hvað ekki. Ég spyr einfaldlega: Af hverju er ríkisstjórninni svona illa við Suðurnes? Hvað hafa Suðurnesin eiginlega gert þessari ríkisstjórn?

Ef maður horfir á þetta frumvarp, horfir á undirbúninginn og verklagið þá er það algerlega í skötulíki (Forseti hringir.) og mér finnst það sérstaklega athyglisvert þegar ráðherrann kemur í ræðustól og viðurkennir að önnur ráðuneyti munu geta sparað meira en utanríkisráðuneytið (Forseti hringir.) við að sinna þessum verkefnum.