138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur þegar verið hagrætt í tengslum við þá stofnun með þeim hætti að þegar allar ákvarðanir sem því tengjast koma til framkvæmda verður sparnaðurinn um 700 millj. kr. Það liggur fyrir.

Að því er varðar hinar alþjóðlegu skuldbindingar þá er ég sammála hv. þingmanni um að ákaflega mikilvægt sé að við stöndum við þær. Ef Íslendingar hafa þörf fyrir eitthvað nú á þessum síðustu tímum þá er það að það sjáist í hinu alþjóðlega samfélagi að við rísum undir þeim skuldbindingum sem við höfum axlað. Það var gengið úr skugga um það eins og hægt var við undirbúning þessa máls að svo væri. Í fyrsta lagi var það algerlega skýr forsenda þeirrar tillögu sem samþykkt var frá mér í ríkisstjórninni 4. desember. Í öðru lagi var haft samráð við alþjóðlega samstarfsaðila okkar og niðurstaðan við lok þeirra samræðna var sú að þær breytingar sem felast í frumvarpinu munu ekki hafa áhrif á getu okkar til að rísa undir þeim skyldum. Eins og ég drap lítillega á í ræðu minni þá er það ein af niðurstöðum þessarar skýrslu og vinnu starfshópsins að við verðum jafnvel betri samstarfsaðilar þeirra alþjóðlegu bandalaga sem við eigum í samstarfi við í þessum málum heldur en Varnarmálastofnun var. Ég ætla ekki að leggja dóm á þá staðhæfingu en hún kemur eigi að síður fram í skýrslunni að vel ígrunduðu og rökstuddu máli.