138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. utanríkisráðherra innilegrar afsökunar en ég verð að játa að stundum fara fram hjá mér ræður sem eru fluttar á vettvangi annarra flokka. Ég bið hæstv. ráðherra að nota það ekki gegn mér vegna þess að þá værum við í vondum málum. Ég bið hæstv. ráðherra líka um að snúa ekki út úr fyrir mér, ég er ekki sammála meginmarkmiðum þessa frumvarps. Ég er sammála mörgum atriðum sem koma fram í skýrslunni en eins og ég sagði snýr þetta allt á haus. Og ég gagnrýni útúrsnúninga eins og þá sem hæstv. ráðherra viðhefur þegar hann varpar spurningum til mín í staðinn fyrir að svara þeim spurningum sem ég varpaði til hans.

Ég held að ég ætti þá bara að leika sama leik og halda áfram að spyrja hæstv. ráðherra. Þegar við spáum t.d. í þau verkefni sem hæstv. ráðherra talar um í viðtali í Fréttablaðinu 12. apríl vísar hann í að hætta megi einhverjum núverandi verkefnum Varnarmálastofnunar. Það kemur ekki fram í skýrslunni hvaða verkefnum Varnarmálastofnunar eigi að hætta og þá ætla ég að beita hælkrók á hæstv. ráðherra og spyrja hann: Hvaða verkefnum á að hætta? Ég vísa í þetta fréttablaðsviðtal og spyr, vegna þess að þetta er t.d. eitt af því sem ég hef áhyggjur af vegna þess að það segir hvorki beint í skýrslunni né frumvarpinu: (Forseti hringir.) Hvaða verkefni á hæstv. ráðherra við? Og hefur það áhrif á varnarskuldbindingarnar?