138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú afsökun sem hv. þingmaður óskaði eftir að ég veitti henni er góðfúslega veitt en ég mundi mæla með því að hv. þingmaður mundi kannski fylgjast betur með því þegar hæstv. forsætisráðherra flytur stefnumótandi ræður sem m.a. varða þau mál sem henni eru hugleiknust.

Kannski ætti hv. þingmaður líka að fylgjast dálítið betur með því sem hún segir sjálf. Hún hafnar því að hún hafi lýst stuðningi við ýmis meginmarkmið í þessu frumvarpi. Hv. þingmaður sagði eigi að síður að hún styddi hugmyndina um stofnun innanríkisráðuneytis og sagði að hún væri góð. Hv. þingmaður sagði að það væru töluverðir hagræðingarmöguleikar, sagði það að vísu með öðrum orðum, fólgnir í því, eins og hún sagði, að hefja þessa vinnu og hún nefndi t.d. samhæfingu verkefna Landhelgisgæslu, ríkislögreglustjóra og Varnarmálastofnunarinnar. Það er alveg hárrétt hjá henni. Það er partur af því, og stór partur af því að menn eru að fara í þennan leiðangur.

Hv. þingmaður getur hins vegar ekki talað um að ég beiti hana hælkrók eða mælskubrögðum þegar ég spyr hana út í hinar alþjóðlegu skuldbindingar. Af hverju? Vegna þess að það er algjör lykilforsenda í þessu máli að frumvarpið dragi ekki úr því að við getum staðið við okkar alþjóðlegu skuldbindingar. Ef hv. þingmaður segir (Gripið fram í.) eigi að síður að þetta leiði til þess að við getum ekki staðið við okkar alþjóðlegu skuldbindingar hlýtur hv. þingmaður að hafa rök fyrir máli sínu. (Gripið fram í.) Hún hlýtur að vita hvað hún á við þegar hún slengir fram svona staðhæfingum. Þetta er grundvallarþáttur í málinu og það er ekki úr vegi fyrir utanríkisráðherra að spyrja talsmann eins af stærstu stjórnmálaflokkunum sem eiga sæti hér hvað hún eigi við. (Forseti hringir.) Eða getur verið að hv. þingmaður viti ekki hvað hún er að tala um? Ég held ekki. (Forseti hringir.) Hún hlýtur að eiga (Forseti hringir.) við eitthvert ákveðið atriði. Hvað er það?