138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að ráðherrann tekur svo afdráttarlaust af skarið um að ætlunin sé að tryggja starfsfólki Varnarmálastofnunar vinnu eftir 1. janúar 2011. Það væri hins vegar áhugavert að vita hvaða nýja stofnun á þá að taka við þessum verkefnum.

Ég fagna því líka sem hæstv. utanríkisráðherra talaði hér um að það eigi að móta öryggisstefnu og að allir stjórnmálaflokkar eigi að koma að þeirri vinnu. Ég hefði talið eðlilegra í ljósi reynslunnar, í ljósi þeirrar skýrslu sem við höfum fjallað mjög mikið um að undanförnu og í ljósi allra þeirra mistaka sem við höfum gert á undanförnum árum og áratugum, að við hefðum byrjað á því að móta öryggisstefnuna fyrst og farið svo í þessar tæknilegu úrlausnir, formbreytingar á því hvernig á að framkvæma öryggisstefnuna, að við hefðum byrjað á réttum enda.

Enn á ný virðist hæstv. utanríkisráðherra hafa ósköp lítið lært af vinnubrögðum forvera sinna þannig (Utanrrh.: Þeir voru aðallega framsóknarmenn.) að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við munum — og er það vandamálið? (Utanrrh.: Hugsanlega, ef ég hef lagt það upp.) Já, það er þetta sem ég er að benda á. Ég vonaðist til þess að ráðherrann hefði lært af þeim vinnubrögðum sem forverar hans tíðkuðu og teldi að ekki væri ástæða til að halda þeim áfram.

Ég hvet ráðherrann til að endurskoða hug sinn um það að gera þetta frumvarp að lögum og fara frekar í þá vinnu að marka skýra öryggisstefnu til framtíðar, öryggisstefnu sem byggist á hugmyndafræði og hugsjónum stjórnarflokkanna og síðan förum við í tæknilegar úrlausnir, að við þurfum ekki að fara í svona hringavitleysu einfaldlega (Forseti hringir.) til þess að leggja niður eitt starf, eins og virðist vera hér.