138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er mjög umhugað um að túlka orð mín eftir sínu eigin höfði. Það er svo sem allt í lagi, ég ætla ekki að banna honum að nýta tjáningarfrelsið. Ég vil þó leiðrétta hæstv. ráðherra um það að ég sagði aldrei að ég teldi að það ætti að stofna innanríkisráðuneyti hið fyrsta og svo fljótt sem verða mætti sameina þessar stofnanir. Þvert á móti sagði ég að ég tæki undir þau sjónarmið að við ættum að flýta okkur hægt. Ég sagði það hreint út þannig að ef hæstv. ráðherra hefði hlustað á það hefði hann ekki þurft að fara í þessa túlkun.

Varnarmálastofnun tók til starfa árið 2008. Nú er apríl 2010. Ég tel ekki komna þá reynslu að við þyrftum að fara að breyta öllu akkúrat núna án þess að ég sé sérstakur talsmaður þess að þessi stofnun verði óbreytt að eilífu. Ég held að við ættum að fara í þessar breytingar og gera þær rétt. Fjölmörg sjónarmið hafa komið fram og af því að hæstv. ráðherra var mikið í mun að halda því fram að hér hefðu komið fram tvö ólík sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins vek ég athygli á því að ekki komu fram tvö ólík sjónarmið innan ríkisstjórnarinnar einkum og sér í lagi vegna þess að hér talaði enginn fulltrúi Vinstri grænna. Við tókum sérstaklega eftir því að þeir voru í salnum en enginn þeirra tjáði sig um þetta mál. Það vakti athygli mína. Þess vegna getur hæstv. ráðherra kannski gumað af því að svo mikil sé sátt innan ríkisstjórnarinnar.

Annað vil ég leiðrétta hæstv. ráðherra með. Hann segir að Varnarmálastofnun sé hernaðarleg stofnun. Það er ekki rétt, Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun. Þar vinna ekki hermenn. Þar vinnur ekki fólk undir vopnum, þetta eru íslenskir borgarar að vinna að verkefnum sem tengjast vissulega veru okkar (Forseti hringir.) í Atlantshafsbandalaginu en það gerir stofnunina ekki að hernaðarlegri stofnun. Þetta ætti hæstv. ráðherra að vita ef hann hefði kynnt sér málið.