138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek þessari hvatningu vel, veit að hún er mælt af góðum huga og sendi hana aftur til þess sem gaf mér hana. Ég tel að hv. þingmaður ætti líka að flýta sér hægt og einkum þegar hann les frumvarpið. Við skulum ræða þetta mál á grundvelli staðreynda. Í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði um breytingastjóra (Gripið fram í.) og hv. þingmaður getur síðan velt fyrir sér af hverju það er. (Gripið fram í.)

Ég velti fyrir mér við hvaða Sjálfstæðisflokk ég er að tala. Hv. þingmaður er bersýnilega mjög andsnúinn því að á þessu stigi verði tekin ákvörðun um að leggja Varnarmálastofnun niður. (Gripið fram í.) Formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar sagt að stofnun hennar hafi verið stílbrot. Fyrrverandi dómsmálaráðherra er þeirrar skoðunar — (REÁ: Af hverju … umræðuna um Varnarmálastofnun?) Telur hæstv. forseti mögulegt að fá frið fyrir þessu gjammi til að eiga málefnalega umræðu?

Frú forseti. Það kom mörgum sinnum fram í ræðum þess manns sem mest hefur af mörkum lagt til að móta utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins að hann var þeirrar skoðunar að fara hefði átt aðra leið. Hv. þingmaður hefur aldrei á sameiginlegum ferli okkar í þinginu heyrt mig andmæla þeirri skoðun, bara svo það liggi fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að ná sem mestri pólitískri sátt um þessi mál. Ef hv. þingmaður, ef ég gæti fengið að tala fyrir gjammi hennar, rekur sig aftur í tímann sér hún að ég hef ærna ástæðu til að ætla að ég sé að feta slóð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað. Hvers vegna? Vegna þess að sú slóð var upphaflega troðin af þeim sem í dag er formaður (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins. Ég tel því að ég hafi fullt tilefni til að ætla að um þetta sé hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu.