138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2010.

542. mál
[20:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þessa umræðu heldur fyrst og fremst fagna því að þessi samningur sé kominn fyrir þingið og í raun og veru hlaða hæstv. utanríkisráðherra nokkru lofi fyrir það að bregðast svo vel og hratt við að leggja þennan samning svo snemma fyrir þingið. Því miður hefur oft á undanförnum allmörgum árum verið misbrestur á því að samningar af þessu tagi hafi komið, að mínu mati, nægilega snemma fyrir þingið og hafa oft og tíðum verið í gildi og raunar kannski búnir að renna sitt skeið að mestu þegar farið hefur verið með þá fyrir Alþingi og það eru auðvitað ekki góð vinnubrögð. Þess vegna vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa staðið svona að þessu máli.

Þessi fiskveiðisamningur milli okkar og Færeyinga er auðvitað mjög þýðingarmikill. Við vitum að það er gróin og gömul djúpstæð vinátta milli þessara tveggja þjóða en samt sem áður hefur það þó nokkuð oft gerst að við höfum ekki alveg verið samferða í málum sem snúa að fiskveiðiréttindum. Sem betur fer hefur ævinlega tekist að gera þessa samninga milli þjóðanna þó að okkur hafi kannski greint á um aðra þætti sem lúta að allt öðrum veiðistofnum en kveðið er á um í þessum samningum. Þessi samningur er hins vegar gríðarlega þýðingarmikill fyrir okkur og hann er mjög þýðingarmikill fyrir Færeyinga. Með hinum umtalaða Hoyvíkursáttmála sem gerður var milli þjóðanna má auðvitað segja að þessir samningar hafi á vissan hátt öðlast meiri dýpt. Að vísu verðum við að átta okkur á því að þessir fiskveiðisamningar eru eitt og Hoyvíkursáttmálinn er annað, en það fer ekkert á milli mála að hinn síðarnefndi hefur á vissan hátt rammað inn samstarf íslensku og Færeysku þjóðarinnar á viðskiptasviðinu.

Við erum að hluta til að ræða hér um stofna sem eru deilistofnar og þá skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur Íslendinga og auðvitað Færeyinga líka að það liggi fyrir heimildir um gagnkvæmar veiðar innan lögsögu hvors ríkis fyrir sig. Það gerir það að verkum að hægt er að stunda þessar veiðar með arðbærari og skynsamlegri hætti. Síðan er það líka þannig, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að í gildi hafa verið frá árinu 1976 sérstakir samningar milli okkar og Færeyinga um veiðar þeirra á botnfiski innan íslenskrar lögsögu. Það hefur stundum verið rætt á undanförnum árum, með minnkandi aflaheimildum í þorskveiðum, hvort ekki væri skynsamlegt og eðlilegt og sanngjarnt að lækka aflaheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að horfa á þessa hluti þeim augum. Við eigum að reyna að vera stærri en svo að við hefjum okkur ekki upp úr, ég vil segja allt að því smásálarskap þegar talað er um að skera þessar þorskveiðiheimildir niður. Ég tel að okkar stóru hagsmunir liggi í því að þessi fiskveiðisamningur sé í gildi í meginatriðum eins og hann er lagður hérna fyrir okkur í þinginu.

Hitt hefur verið miklu erfiðara mál að ná saman og það eru samningar sem hafa lotið að loðnuveiðunum hér við land. Fyrir því eru auðvitað margar ástæður. Þetta var á sínum tíma einhliða ákvörðun, held ég að ég megi segja, af okkar hálfu að heimila Færeyingum þessar loðnuveiðar hér við land. Nú hefur hins vegar tekist svo illa til undanfarin ár að við höfum ekki getað gefið út nema mjög litla aflakvóta í loðnu. Þess vegna var það niðurstaðan fyrir tveimur, þremur árum síðan að Færeyingar féllust á það að þegar aflaheimildir í loðnu væru innan við 500.000 tonn gilti ekki lengur sú regla sem áður hafði verið í gildi að þeir fengu alltaf að 30.000 tonn í upphafi, heldur mundi verða tekið tillit til þess þegar aflaheimildirnar færu niður fyrir 500.000 tonn að þá fengju þeir eingöngu 5% af þeim afla.

Þannig má segja að Færeyingar hafi sýnt skilning á því að aðstæður voru orðnar svo breyttar og fyrir það ber auðvitað að þakka. Þeir hafa hins vegar líka verið að sækja á um aðra hluti sem hafa verið þyngri í skauti fyrir okkur Íslendinga, sem eru ákvæði sem lúta að heimild þeirra til manneldisvinnslu á loðnu sem veidd er innan íslenskrar lögsögu. Það var líka komist að tiltekinni niðurstöðu um þau mál í allstrembnum samningum fyrir að ég hygg tveimur eða þremur árum, ég man þetta ekki alveg gjörla. Ég sé að æ síðan hefur verið byggt á þeirri niðurstöðu sem þá fékkst, sem sýnir það að Íslendingar jafnt og Færeyingar eru tilbúnir til að viðhalda þessum samningum.

Virðulegi forseti. Það var í sjálfu sér ekki ætlunin að hafa mörg orð um þetta annað en að fagna því að þessi samningur sé hér kominn fram og fagna því líka að svo vel hafi tekist til undanfarin ár að ná þessum samningum milli okkar og Færeyinga. Það er heilmikið hér í húfi fyrir báðar þjóðirnar. Þetta eru hins vegar mjög viðkvæm mál, kannski viðkvæmari en menn gera sér grein fyrir við fyrstu sýn. Þess vegna er ástæða til þess að segja það að þetta er auðvitað líka til sannindamerkis um góða og djúpstæða vináttu þessara tveggja þjóða.