138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2010.

593. mál
[21:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er enn einn samningurinn sem við ræðum hérna sem skiptir okkur mjög miklu máli, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur farið yfir. Það segir okkur auðvitað að við eigum að kosta mjög kapps um það að reyna að ná samkomulagi við nágrannaþjóðir okkar um nýtingu stofna, deilistofna, sem varða okkur mjög miklu. Þetta hefur gengið mjög misjafnlega í gegnum tíðina. Stundum höfum við verið í þeirri stöðu að við höfum ekki verið með samninga um mikilvæga stofna, eins og t.d. þennan norsk-íslenska stofn, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði. Á sínum tíma var það mjög harðsótt barátta að reyna að koma saman samningi strandveiðiþjóðanna um nýtingu á norsk-íslenska síldarstofninum. Það tókst og þannig var það um nokkurra ára skeið, allnokkurra ára skeið. Síðan slitnaði aftur upp úr þessu og í nokkur ár vorum við ekki með samning um norsk-íslensku síldina. Það var auðvitað mjög alvarlegt, mjög bagalegt. Á vissan hátt má segja sem svo að menn hafi í grófum dráttum virt nokkuð fyrri samninga vegna þess að hér var um að ræða þjóðir eins og okkur og Norðmenn sem í grunninn erum ábyrgar auðlindanýtingarþjóðir. En þetta var mjög bagalegt og slæmt ástand og gat ekki varað að eilífu.

Sem betur fer tókst á árinu 2007, ég hygg að það hafi verið í ársbyrjun 2007, að ná samningum að nýju og sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir byggir á þeim samningi. Á sínum tíma var mjög örðugt að ná þessum samningum saman, allir aðilar urðu að gefa eftir. Það varð heilmikill hávaði um þetta en ég held að öllum sem núna skoða þetta í sanngjörnu ljósi sé það ljóst að þetta var skynsamleg og sanngjörn niðurstaða sem hefur líka skipt okkur mjög miklu máli.

Eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði er norsk-íslenski síldarstofninn stækkandi stofn. Þess vegna varðar það mjög miklu að við í fyrsta lagi höldum utan um veiðina, heildaraflann í veiðinni, til þess að tryggja það að þessi þróun haldi áfram, að við göngum ekki fram af stofninum eins og gerðist í lok sjöunda áratugarins. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það átti ekki síst og alveg sérstaklega rætur sínar að rekja til smásíldarveiðanna sem Norðmenn stunduðu í norskum fjörðum og mætti svo sem hafa um það mörg orð. Aðalatriðið er þó það að við gerum okkur grein fyrir því að við höfum skyldur, sérstaklega vegna þessarar sögulegu reynslu sem við höfðum frá sjöunda áratugnum þegar svona illa fór með þennan gríðarlega mikilvæga nytjastofn okkar, sem ásamt hruninu á þorskmörkuðum í Bandaríkjunum olli hér gífurlega miklum vandræðum í lok sjöunda áratugarins eins og allir vita.

Það skiptir því mjög miklu máli fyrir okkur að það séu samningar af þeim ástæðum, þessum líffræðilegu ástæðum. Síðan ekki síður hitt að á grundvelli svona samninga er hægt að skipuleggja veiðistjórnina með þeim hætti að við hámörkum afraksturinn af því sem við erum að taka úr sjónum. Við höfum einmitt dæmi núna fyrir framan okkur undanfarin nokkur ár þar sem hefur orðið gífurlegur vöxtur í veiði á makríl. Við höfum hins vegar verið með afleita fiskveiðistjórnun á því ef fiskveiðistjórnun er hægt að kalla sem hefur gert það að verkum að við höfum sjálfsagt orðið af 5–10 milljörðum króna í fyrra vegna þess að við gátum ekki skipulagt veiðarnar eins og eðlilegt hefði verið og við gerum við flestar aðrar fisktegundir. Nú er sem betur fer búið að ráða bót úr því og er með því skárra sem hefur komið úr ranni hæstv. ríkisstjórnar enda fengið bágt fyrir frá hluta af stuðningsmönnum sínum. En það er engu að síður svona með því skárra sem þar hefur verið gert og mun leiða til þess að við munum fá meiri afrakstur af nýtingu makrílsins en við höfðum áður.

Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt í lokin sem ég get eiginlega ekki stillt mig um að nefna. Við tókumst mjög harkalega á, stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, um ákvæði í frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um einar breytingarnar á fiskveiðistjórnarlögunum — sveigjanleiki og hagkvæmni í sjávarútvegi var hinn yfirlýsti tilgangur þess frumvarps en þess í stað var sett inn í frumvarpið, að þrábeiðni ríkisstjórnarinnar og fyrir frumkvæði hennar, sérstakt ákvæði til að draga úr sveigjanleikanum. Var ákveðið að draga úr þeim möguleikum sem menn hefðu til þess að færa ónotaðar fiskveiðiheimildir milli ára. Þess vegna fagna ég því mjög í þessari þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra að þar er sérstaklega vikið að þýðingu þess að geta flutt með sér aflaheimildir milli ára til þess að skapa sveigjanleika við nýtingu aflaheimilda. Það fór þá svo að lokum að það fannst einn í ríkisstjórninni sem hafði skilning á þessu þýðingarmikla (Gripið fram í.) atriði og kannski gæti það orðið til þess að smitaðist út við ríkisstjórnarborðið þessi skynsamlega og frjálslynda hugsun um að auka sveigjanleikann til þess að auka hagkvæmnina í sjávarútveginum, þar er þó alla vega von á einum.