138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[21:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi þar sem það sýnir að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er ekki aðeins upptekinn af því að taka á öllum þeim þáttum sem áttu þátt í falli bankanna heldur jafnframt því sem fór afvega hjá öðrum hlutafélögum. Frumvarpið tekur þó ekki á öllum þáttum sem gagnrýndir hafa verið, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vil geta nokkurra hér og fá álit hæstv. ráðherra á því hvernig best er að taka á þessari gagnrýni.

Í fyrsta lagi í ljósi þess að eigendur og stjórnendur gömlu bankanna tæmdu þá, m.a. með því að veita sjálfum sér lán til kaupa á hlutabréfum með veði í bréfunum sjálfum, velti ég fyrir mér hvort ekki sé hægt að banna slíka veðsetningu. Stendur eitthvað í vegi fyrir því að breyta 8. gr. laga um hlutafélög sem leyfir lán fyrir kaupum í hlutabréfum með veði í þeim sjálfum?

Í öðru lagi voru mörg dæmi um það á útrásartímabilinu að stjórnendur sem ekki sættu sig við stjórnarhætti innan hlutafélaga hættu skyndilega störfum með digra starfslokasamninga. Þessir starfslokasamningar voru nokkurs konar kaup á þögn stjórnenda sem ekki skýrðu frá því opinberlega að innan fyrirtækisins væru ákveðnar grunsemdir um fjármálamisferli og jafnframt mjög áhættusama starfsemi eða að þeim væri glannalega stjórnað. Það er spurning hvort hægt sé að taka á þessu í hlutafélagalögunum þannig að stjórnendum og eigendum sé skylt (Forseti hringir.) að skýra opinberlega frá slíku athæfi.