138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[21:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur þessar athugasemdir og ábendingar. Það er rétt að rifja upp vegna fyrri ábendingarinnar að í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki er sérstaklega tekið á lánum með veði í eigin bréfum og reyndar einnig með veði í bréfum annarra fjármálafyrirtækja. Ég fæ ekki betur séð en að sömu sjónarmið ættu að eiga við um hlutafélög og einkahlutafélög, þ.e. það var óeðlilegt að þau veittu lán, hvort sem þau eru fjármálafyrirtæki eða ekki, með veði í eigin bréfum. Án þess að hafa kannað það mál sérstaklega sé ég ekki annað en að efnislega hljóti ég að vera sammála tillögu þingmannsins.

Í frumvarpinu eru umfjöllun og ákvæði um starfslokasamninga sem taka á hluta af því sem hv. þingmaður nefndi en vissulega ekki þeirri hættu sem kann að vera á því að starfslokasamningar séu notaðir til að veita fráfarandi stjórnendum umbun fyrir að segja ekki frá því hvers vegna starfslok þeirra urðu. Ég hef ekki hugleitt það mál nógu náið til að fullyrða neitt um hvort hægt er að setja einhver ákvæði hvað þetta varðar inn í lögin en hlýt þó að lýsa þeirri skoðun minni að vitaskuld hlýtur stjórnendum hlutafélaga sem verða vitni að hreinu lögbroti að bera skylda eins og öðrum þegnum til að greina viðeigandi yfirvöldum frá því.