138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[21:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í grunninn held ég að almenn samstaða sé um að það væri rétt að hafa umgjörð fyrirtækjarekstrar þannig að það ætti að vera hægt að stöðva þá sem kerfisbundið misnota réttinn til að ganga frá gjaldþrota hlutafélögum og skilja eftir skuldirnar. Vilji minn stendur til þess að hægt sé að gera það. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það er erfitt að stilla af möskvastærðina í netinu sem á að sjá til þess þannig að það veiði ekki ýmsa aðra sem við vildum ekki veiða. Við verðum að hafa í huga að hlutafélagaforminu sem er aldagamalt fyrirbrigði er beinlínis ætlað að gera mönnum kleift að vera með áhættusaman rekstur með takmarkaðri ábyrgð og án persónulegrar ábyrgðar þannig að það er í eðli hlutafélaga að geta farið á hausinn. Það er beinlínis gert ráð fyrir því og það er einn kostur þessara félaga, svo undarlega sam það kann nú að hljóma. Við viljum því líklega ekki ganga það langt að gera t.d. hlutafélögum illkleift að manna stjórnir eða framkvæmdastjórn sem einhver veruleg hætta er á að verði gjaldþrota og t.d. gera það erfitt að manna stjórnir fyrirtækja sem eru komin í fjárþröng. Þá þarf oft að skipta um stjórnendur en þeir sem taka við vonlitlum rekstri væru væntanlega ekki jafnfúsir til að gera það ef þeir ættu á hættu að seta þeirra í of mörgum slíkum stjórnum leiddi til þess að þeir yrðu útilokaðir frá viðskiptalífinu

Ég er í grundvallaratriðum reiðubúinn að skoða allar góðar hugmyndir í þessu efni en ég er ekki mjög bjartsýnn (Forseti hringir.) á að handhæg og góð lausn finnist