138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða eitt af þeim fjölmörgu málum sem berast nú á borð þingsins, í þessu tilfelli hv. viðskiptanefndar, þar sem við erum að vinna ansi stórt verk sem felst í því að efla tiltrú einstaklinga á markaðnum, ef þannig má að orði komast, og slíkt verk krefst þess að vel sé farið yfir það. Mikil hætta er á því í þessu stóra verkefni að ef við vöndum okkur ekki sérstaklega missi menn yfirsýn og klári ekki verkið eins og nauðsynlegt er. Skýrt dæmi um það eru t.d. lögin um sparisjóðina sem við keyrðum með miklum hraða fyrir tæpu ári, sem var mjög vont og gert með þeim rökum að ef við gerðum þetta ekki á nokkrum dögum yrði sparisjóðakerfið í mikilli upplausn vegna þess að svo mikið lægi á því að koma sparisjóðum til bjargar. Nú tæpu ári síðar hafa fjármunir enn ekki komið frá ríkinu inn í einn einasta sparisjóð. Við erum hins vegar með lög, sem ég efast um að við höfum tíma til að fara yfir þótt við þyrftum þess, og í raun umgjörð um sparisjóðina sem eru engan veginn fullnægjandi og ég hef miklar áhyggjur af því rekstrarformi í framtíðinni vegna þess að svo sannarlega fórum við ekki yfir það eins og skyldi hér í þinginu.

Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál er meiningin mjög góð. Ef ég skil þetta rétt erum við að reyna að styrkja minnihlutavernd eins og það er kallað. Ef maður les athugasemdir með frumvarpinu þá hafa menn reynt að gera slíkt frá árinu 1978 í það minnsta í lagaformi, en svo sannarlega eru miklar brotalamir á því.

Ég hef aðeins lesið í gegnum þetta frumvarp og velti fyrir mér hvort það sé tæki sem hefði komið í veg fyrir ýmislegt sem miður fór. Þá er ég kannski að vísa til þess að þegar ég lít yfir íslenskt atvinnulíf á undanförnum árum, á þessum hröðu árum, sýnist mér að það sama hafi gerst og við síðustu aldamót. Því miður lærðum við ekki þá að aðilar sem komast í stöðu, fá meiri hluta í fyrirtækjum, hreinsa þau að innan ef þannig má að orði komast. Þeir taka alveg gríðarlega fjármuni út úr fyrirtækjunum og skuldsetja þau. Því miður virtist þetta vera orðin lenska á Íslandi og jafnvel þó að bankahrunið hefði ekki komið til værum við með gríðarlega skuldsett atvinnulíf. Þessar staðreyndir virtust fara mjög fram hjá flestum og voru lítið ræddar. Ég man að fyrir 20 til 30 árum eða svo þótti þetta mikið vandamál í íslensku atvinnulífi, ekki vegna þess að menn væru að hreinsa út úr fyrirtækjunum heldur var gróði litinn svo miklu hornauga að fyrirtæki áttu mjög erfitt með að reka sig með hagnaði og safna eigin fé. Þetta var sérstaklega áberandi í samvinnufyrirtækjum og er kannski ein af ástæðunum fyrir því að svo fór sem fór.

Hér vildi ég ræða efnislega nokkur atriði sem koma fram í frumvarpinu sem mér sýnist vera til bóta, mjög til bóta, en það væri gott að fá sjónarmið ráðherrans. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hluthafi getur krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu enda standi veigamikil rök til þess að honum verði gert kleift að losna úr félaginu vegna þess að:

1. Félagsstjórn, framkvæmdastjóri eða aðrir, sem fram koma fyrir hönd félags, hafa brotið gegn ákvæðum 76. og 95. gr. um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna.

2. Annar hluthafi í félaginu hefur misbeitt áhrifum sínum í félaginu.

3. Djúpstæður og langvarandi ágreiningur er milli hluthafans og annarra hluthafa um rekstur félagsins.

Ef innlausn skv. 1. mgr. leiðir til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiðir með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það skal ekki taka kröfu hluthafans til greina. Sama máli gegnir ef félagið finnur einhvern sem er reiðubúinn til að kaupa hlutabréfin gegn greiðslu er svarar til innlausnarverðsins. Ákvæði 4. mgr. 22. gr. gilda eftir því sem við á.“

Ég hef skoðað þá grein og það er erfitt að átta sig á því hvaða reglur gilda um innlausnarverð nema þær séu sérstaklega tilgreindar í samþykktum. Ef ég skil þetta rétt á þetta væntanlega fyrst og fremst við óskráð félög. Ég þekki dæmi þess að þar geti menn lent í því að vera algjörlega áhrifalausir og horfa á þá fjármuni hverfa sem þeir hafa lagt í félagið. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði dæmisögu. Ég þekki dæmi þess að ævistarf einstaklings var inni í félagi sem þessu, honum var hent út úr stjórn og hann gerður áhrifalaus og gat ekkert gert á meðan meirihlutaeigendur félagsins fóru með félagið lóðrétt á hausinn í einhverju, ég veit ekki í hverju það var, en í það minnsta var þessi aðili algjörlega bjargarlaus en gat hins vegar bent á að þarna væru menn svo sannarlega að gera hluti sem voru ekki í samræmi við hagsmuni félagsins. Hann hefði örugglega líka getað notað hinn hlutann, þ.e. að annar hluthafi í félaginu hefði misbeitt áhrifum sínum, en þetta einstaka mál er kannski ekki aðalatriði, þegar maður sér fólk verða fyrir slíku beint fyrir framan sig hefur maður skilning á því af hverju grein eins og þessi er sett inn.

Ef hæstv. ráðherra hefur ekki svörin á reiðum höndum hef ég alveg skilning á því, en það er kannski spurning um hver hugmyndin á bak við þetta innlausnarverð er, þarna er vísað í norska löggjöf. Það væri gaman að heyra hver hugsunin á bak við þetta er og hvort þetta eigi fyrst og fremst við óskráð félög eða líka félög á markaði. Ég hef verið að lesa þetta í dag en hef ekki næga þekkingu, við fáum það nú örugglega þegar við förum í þetta í nefndinni en það væri gott að fá sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og hvaða hugsun liggur þarna að baki.

Mér sýnist 7. gr. og raunar 13. gr. líka ganga út á það að takmarka að hægt sé að misbeita og taka fjármuni út úr félagi í gegnum óeðlileg starfskjör eða starfslok. Einnig að setja strangar reglur um það að ef mikil fjölskyldutengsl eru á milli þeirra sem gera samninga innan félagsins þurfi að leggja slíka samninga fyrir hluthafafundi. Þetta eru örugglega skynsamlegar og eðlilegar ráðstafanir.

Þar var heldur ekki neitt sem stakk í augun við fyrstu yfirferð, en menn ættu ekki að halda að hér sé um einfalt mál að ræða. Ef ég skil athugasemdir við lagafrumvarpið rétt er um að ræða frumvarp sem samið var með hliðsjón af, svo ég lesi úr athugasemdum á bls. 8, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem viðskiptaráðherra skipaði í ársbyrjun 2004 og var meðal annars ætlað að taka á því hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og hvernig haga bæri reglum til að tryggja skilvirkni og traust viðskiptalífsins.“

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á þessu. Þessi nefnd var skipuð í ársbyrjun 2004 og var ætlað að koma í veg fyrir það sem við tölum nú mikið um að hafi farið úrskeiðis og sé rótin að bankahruninu. Ég ætla ekki að skamma hæstv. ráðherra fyrir þetta, ég held að hann sé alveg fullkomlega saklaus af því að hafa ekki komið þessu í framkvæmd, en það er umhugsunarefni að nefnd skuli hafa verið skipuð til að taka á þessum þáttum í ársbyrjun 2004 og að við séum að ræða þetta nú þegar skaðinn er skeður.

Virðulegi forseti. Mér sýnist tilgangur frumvarpsins vera góður og að margt gott sé í því. Í þessari fyrstu umræðu vil ég velta upp spurningum vegna 2. gr. sem mér finnst áhugaverð. Þetta eins og annað sem er í viðskiptanefndinni er þess eðlis að við þurfum að fara vel yfir þetta. Við komumst ekki hjá því að skoða þetta mál í samhengi við annað. Í sjálfu sér er ekkert slæmt við það að hópur þingmanna og þeirra sem hv. þingnefnd kallar til fari gaumgæfilega yfir alla þessa þætti. Við höfum lög um fjármálafyrirtæki, lög um vátryggingastarfsemi. Nú fáum við nokkur frumvörp sem tengjast samkeppnislögum og lögum um hlutafélög. Ég held að það sé ekkert slæmt að fara í þetta allt í einu að því gefnu að hv. nefnd gefi sér nægan tíma. Ég held að í sjálfu sér geti verið kostur að taka þetta allt svona í einu, að því gefnu að við gefum okkur þann tíma og það ráðrúm sem þarf til að klára þetta þannig að sómi sé að.

Við breyttum starfsemi þingsins fyrir nokkrum árum með það í huga að ef menn geta ekki klárað frumvörp á vorþingi þá sé hægt að kalla þingið saman til að gera það að hausti og ég held að þau frumvörp sem liggja fyrir séu þess eðlis að skynsamlegt væri að fara vel yfir þau á sumarmánuðum. Þó að ég ætli ekki að skamma þá sem hér eru inni fyrir það, þá er því miður svo mikið óskipulag hjá ríkisstjórninni að þegar 14 þingdagar voru eftir fengum við 49 mál frá ríkisstjórninni, hvorki meira né minna. Það er mikil kaldhæðni að nú þegar þjóðin og kannski sérstaklega þingmenn hafa talað um að við þurfum að tileinka okkur breytt vinnubrögð og læra af því sem miður fór, erum við að — ja, ég man ekki eftir að þetta hafi nokkurn tímann verið jafnslæmt, enda erum við eftir því sem ég best veit byrjuð að fresta eða breyta allri þeirri áætlun sem við lögðum upp með hér fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er sjálfsagt að hafa sveigjanleika í því hvernig menn haga störfum sínum, en því miður bendir allt til þess að við verðum hér á hlaupum á einhverjum næturfundum að afgreiða gríðarlega stór mál og við vitum að þegar menn vinna með þeim hætti þá er hætta á slysum. Það hafa orðið alveg nógu mörg slys í íslenskri lagasetningu fyrir minn smekk og ég held flestra annarra.