138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að það sem hv. þingmaður bendir á getur verið raunverulegt vandamál og þess vegna er mikilvægt að menn grípi strax til ráðstafana þegar þeir verða þess áskynja að pottur er brotinn í rekstri félaga sem þeir eiga hlut í, þ.e. höfði sem fyrst það mál sem rætt er um í 2. gr. frumvarpsins. Nú getur auðvitað verið að menn uppgötvi ekki að pottur sé brotinn fyrr en það er of seint og lítil verðmæti eftir í félaginu en þá hljóta menn að eiga önnur úrræði, væntanlega þau að krefjast skaðabóta. Það getur farið eftir efnum og ástæðum hverju sinni hvort þær fáist eða hvort þeir sem ollu tjóninu eru borgunarmenn fyrir þeim en þetta er raunverulegur vandi. Ég fæ ekki séð að hægt sé að girða fyrir hann fyrir fullt og allt með lagabreytingum. Við reyndum hvað við gátum í ráðuneytinu þegar þessi grein var samin en ef þingmaðurinn, aðrir þingmenn eða einhverjir aðrir koma með betri tillögur til að taka á þessu álitamáli er ég að sjálfsögðu meira en fús til að skoða þær með opnum hug.