138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að það sé brýnt að safna upplýsingum um skuldastöðu heimilanna. Í rauninni hefði átt að leggja fram þetta frumvarp fyrir 18 mánuðum en allt of margir hafa lokað augunum fyrir vandanum allt of lengi.

Helsti galli frumvarpsins er að mínu mati að einblínt er of mikið á skuldastöðu og greiðslugetu heimila. Það er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld fái sem fyrst mynd af því hvort þeim heimilum fari fjölgandi sem komin eru í vanskil og eru á leið í nauðungarsölu með eignir sínar til að hægt sé að grípa inn í sem allra fyrst. Slíkar upplýsingar um vanskil og nauðungarsölur er hægt að fá í gegnum dómsmálaráðuneytið og hvet ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að hafa samstarf við það ráðuneyti um að bæta þessum upplýsingum við gagnasöfnunina. Auk þess er ekki talað um það í 2. gr. frumvarpsins að safna eigi upplýsingum um ólík skuldaúrræði en það kom samt fram í framsögu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Brýnt er að við fáum sem fyrst mynd af því hversu margir nýta sér úrræðin þannig að við vitum hverjum þau gagnast og hvaða úrræði eru í raun og veru flöskuháls. Þá er hægt að grípa inn í ef við höfum tiltækar upplýsingar og laga úrræðin þannig að fleiri komist í gegnum þau á sem skemmstum tíma.