138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mótmælir því að frumvarpið hafi komið seint fram. Ég vil geta þess að það stendur m.a. í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hægt hafi gengið að taka á skuldavandanum. Það kom jafnframt fram í máli hins svokallaða landstjóra að það mætti ganga hraðar að taka á skuldavanda heimilanna. Rannsóknir sýna jafnframt að það sem hægir á endurreisn eftir bankahrun er aðgerðaleysi varðandi skuldir fyrirtækja og heimila. Ég óttast að við séum einmitt dottin í þann pytt að taka of seint og of lítið á skuldavandanum.