138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega held ég að allir landsmenn vildu að meira yrði gert og hraðar, bæði hvað varðar skuldavanda heimila og einnig að greiða úr þeirri miklu skuldaflækju sem íslensk fyrirtæki eru flest hver að glíma við. Ég er auðvitað ekki rétti maðurinn til að skera úr um hvort unnið hafi verið nógu hratt til þessa en ég ætla að fullyrða fyrst við erum að ræða þetta tiltekna frumvarp að sú rannsókn sem þar er kynnt flýti fyrir því að við finnum markviss úrræði við þeim vanda sem enn er við að etja. Þau úrræði sem við höfum þegar kynnt virðast ekki duga til að leysa vandann. Að því leyti til tel ég engan ágreining um að rannsóknin sé til bóta þó að vissulega geti verið ágreiningur um hvenær átti að vinna hana.